Innlent

Neitar innflutningi á e-töflum

E-töflurnar fundust í bögglinum og voru fjarlægðar áður en pilturinn sótti hann.
E-töflurnar fundust í bögglinum og voru fjarlægðar áður en pilturinn sótti hann.

Sautján ára pólskur piltur hefur verið ákærður fyrir stórfellt fíkniefnabrot. Honum er gefið að sök að hafa reynt að taka á móti tæplega 2.000 e-töflum, ætluðum á markað hérlendis, á pósthúsi í Reykjavík í desember.

Pilturinn sótti sendinguna í póstmiðstöðina að Stórhöfða 15. desember í fyrra, örfáum dögum eftir sautján ára afmælisdag sinn.

Böggullinn hafði borist frá Póllandi og var stílaður á pólska konu í Breiðholtinu. Í honum hafði lögregla fundið 1.921 e-töflu og nokkur grömm af e-töfludufti. Búið var að fjarlægja efnin úr bögglinum þegar pilturinn sótti hann.

Hann var handtekinn í kjölfarið og sætti gæsluvarðhaldi um nokkurra daga skeið.

Ákæra Ríkissaksóknara á hendur piltinum var síðan þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur í gær. Hann neitar sök og ber fyrir sig að hann hafi ekki vitað hvað hafi átt að vera í sendingunni. Hann gæti jafnvel átt yfir höfði sér nokkurra ára fangelsi.

Aðalmeðferð í málinu fer fram 19. október. - sh




Fleiri fréttir

Sjá meira


×