Innlent

Bíræfinn þjófur stal barnavagni

Aðalheiður ásamt börnunum sínum.fréttablaðið/stefán
Aðalheiður ásamt börnunum sínum.fréttablaðið/stefán

„Ég á ekki orð yfir að nokkur skuli stela vagni frá barni. Þetta er ótrúlegt,“ segir Aðalheiður Þorsteinsdóttir. Barnavagni tíu mánaða sonar hennar og Adams Bjarka Ægissonar var stolið fyrir utan heimili þeirra á Holtsgötu í fyrrakvöld.

Að sögn Aðalheiðar var vagninn horfinn þegar Adam hugðist setja hann inn í geymslu klukkan níu um kvöldið. „Enginn nágrannanna sá neitt. Þjófurinn hefur greinilega verið á höttunum eftir barnavagni, því hann snerti ekki við glænýju grilli, hjóli og hlaupahjóli sem líka stóðu fyrir utan. Þetta er mjög rólegt hverfi og við bjuggumst alls ekki við þessu,“ segir Aðalheiður.

Hrafnkell Ingi, tíu mánaða gamall sonur hjónanna, er hjartveikur. „Hann á sína erfiðu daga vegna veikindanna. Þessi vagn hefur bjargað okkur alveg, því í honum hvílist Hrafnkell vel og sefur kannski í þrjá klukkutíma samfleytt. Í dag [í gær] höfum við reynt að láta hann sofa inni, en það hefur alls ekki gengið vel.“

Aðalheiður keypti vagninn, sem er svartur og grár Brio-kerruvagn, árið 2007 þegar dóttir hennar fæddist. „Þá kostaði hann 80.000 krónur en kostar núna 145.000, og bara kerrupokinn kostar 20.000 í viðbót. Við fáum tjónið bætt, en konan sem ég talaði við hjá tryggingarfélaginu sagðist því miður hafa heyrt fleiri dæmi um barnavagnaþjófnaði að undanförnu,“ segir Aðalheiður Þorsteinsdóttir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×