Innlent

„Við skríðum ekki heim og leggjumst undir sæng"

Björn Þorri Viktorsson
Björn Þorri Viktorsson
„Menn mega kalla þetta hvað sem þeir vilja, svona er veruleikinn í dag og það er ekkert leyndarmál," segir Björn Þorri Viktorsson lögmaður og fasteignasali sem sagður var stunda kennitöluflakk í kvöldfréttum Rúv. Björn Þorri rekur tvær lögmannstofur og tvær fasteignasölur við annan mann. Nýlega var skipt um kennitölur á þessum fyrirtækjum sem skulda umtalsvert fé.

Björn Þorri hefur verið nokkuð áberandi í fjölmiðlum að undanförnu meðal annars vegna hópmálsóknar sem hann undirbýr gegn bönkunum. Hann segir í samtali við Vísi að þetta sé ekkert leyndarmál, staðan sé því miður svona og þetta sé í raun ekkert sem á að koma neinum á óvart. „Hefur ekki ríkisstjórnin sýnt mönnum hvernig er gáfulegast að gera þetta," segir Björn.

Björn segir að fyrirtæki sín séu ekki orðin gjaldþrota en nú sé allra leiða leitað til þess að reyna að bjarga þeim, takist það ekki eru þeir með önnur félög til þess að taka yfir reksturinn. „Við skríðum ekki heim og leggjumst undir sæng."

Björn segir að veð standi á bak við þau lán sem eru í félögum sínum, það verði síðan að koma í ljós hvað fáist upp í þau. „Það verður þó væntanlega þannig að veðin standa illa undir 150% hækkunum. Þetta er bara það sem er í gangi allsstaðar, þó við séum að basla og berjast þá erum við engir töframenn,"

„Þetta er auðvitað ekkert skemmtiefni þó ég nenni ekki að grenja yfir þessu. Maður er auðvitað búinn að reka þessi fyrirtæki í þréttán ár og byggja upp. Þetta eru bara eins og börnin manns en síðan er bara allt í einu ekki grundvöllur fyrir rekstri."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×