Innlent

Kynferðisbrotum gegn kornungum börnum fjölgar

Vísbendingar eru um að kynferðisbrotum gegn kornungum börnum hafi fjölgað og málin séu alvarlegri en áður. Grunur er um brot gegn börnum allt niður í eins árs.

Bæði lögregla og barnaverndaryfirvöld segjast sjá ákveðna aukningu í málum er varða börn sem eru yngri en fjögurra ára og hefur lögreglan á höfuðborgarsvæðinu fengið nokkur slík mál til meðferðar frá áramótum.

Forstjóri Barnaverndarstofu segir að um 25 til 30 mál á ári hafi verið að koma til rannsóknar hjá Barnahúsi þar sem í hlut eiga börn á aldrinum þriggja til fimm ára. Við fyrstu sýn virðist sem þeim hafi ekki fjölgað.

,,Hitt er annað að þegar betur er að gáð þá kemur í ljós að þá eru margar vísbendingar um að þau mál er varða mjög ung börn að þau séu bæði að tiltölu fleiri og alvarlegri en áður var," segir Bragi Guðmundsson forstjóri Barnaverndarstofu.

Rannsóknir fara fram með tvennum hætti vakni grunur um kynferðisbrot, unnt er að hlusta á tjáningu og frásögn barnsins - hafi það til þess málþroska - og/eða gera læknisrannsókn.

Bragi bendir á að læknisrannsóknum hafi fjölgað er varða börn undir þriggja ára aldri og segir dæmi þess að kornabörn hafi verið skoðuð vegna meintra kynferðisbrota.

,,Ég veit að það hafa verið börn í kringum eins árs aldurinn og það hefur verið grunur um kynferðismisnotkun á börnum sem eru yngri en eins árs, en ekki hefur verið unnt að sanna það beint að svo hafi verið, en því miður má ætla að slíka dæmi séu til þó að sem betur fer séu þau mjög sjaldgæf," segir Bragi.

Mikill árangur hefur náðst í þessum málaflokki hér á landi, svo eftir hefur verið tekið erlendis. Afar erfitt er hins vegar að færa sönnur á að kynferðisbrot gegn kornungum börnum hafi í raun átt sér stað, gegn eindreginni neitun sakbornings. Hefur aðeins einn dómur fallið í slíku máli.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×