Innlent

Kári kannast ekki við uppsagnir hjá deCode

Kári Stefánsson, forstjóri deCode.
Kári Stefánsson, forstjóri deCode. Mynd/GVA
Kári Stefánsson, forstjóri deCode, segist ekki kannast við að uppsagnir séu yfirvofandi hjá fyrirtækinu né heldur að nokkrar ákvarðanir þar að lútandi hafi verið teknar. Fullyrt er í DV í dag að listi með nöfnum þeirra starfsmanna fyrirtækisins sem halda starfinu eftir væntanleg eigendaskipti megi finna á Netinu.

Forsíða DV í dag mun hafa verið eins og blaut tuska í andlit starfsmanna deCode þar sem greint er frá því að listi með nöfnum þeirra starfsmanna sem halda starfinu hjá fyrirtækinu hafi verið lekið á Netið i gegnum bandaríska lögfræðiskrifstofu. Þeir sem muni missa starf sitt á næstu mánuðum hafi komist að því þar sem nöfn þeirra voru ekki á listanum.

Það eru 20 til 30 starfsmenn deCODE af 170.

Þessar fregnir eru algerlega á skjön við það sem fram kom í fréttum Stöðvar2 í síðustu viku þegar greint var frá áhuga Saga Investments á því að eignast deCode. Þá var sagt að reksturinn væri tryggður næstu tvö árin og starfsmönnum var létt.

Kári Stefánsson sá ekki ástæðu til að veita fréttastofu viðtal vegna fréttar DV í dag, en sagðist í samtali við fréttamann ekki hafa séð þennan lista, né komið nálægt því að setja hann saman. Fari það svo að Saga Investments eignist félagið þá verði hann áfram stjórnarformaður og hann taki ákvarðanir um það hvaða starfsmenn verði áfram og hverjir fari. Hins vegar væri ekki búið að taka neina ákvörðun um að segja upp starfsfólki og enn sem komið er væru uppsagnir ekki hluti þeim viðskiptaáætlunum sem væru á borðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×