Enski boltinn

Giggs skaut United á toppinn - með hægri

Giggs fær klapp á kollinn frá Cristiano Ronaldo
Giggs fær klapp á kollinn frá Cristiano Ronaldo AFP

Manchester United endurheimti í kvöld toppsætið í ensku úrvalsdeildinni þegar liðið vann 1-0 baráttusigur á West Ham á Upton Park.

Það var hinn 35 ára gamli Ryan Giggs sem skoraði sigurmark United með hægri fæti eftir rúmlega klukkutíma leik, en þetta var fyrsta mark hans í deildinni í vetur.

West Ham gaf meisturunum ekkert eftir í dag enda hefur liðið verið á góðri siglingu í deildinni undanfarnar vikur, en United hefur ekki fengið á sig mark í 13 leikjum í röð, eða síðan 8. nóvember í fyrra.

West Ham hafði ekki tapað í sex leikjum í röð, en fann ekki göt á ógnarsterkri vörn United í dag.

Á 34. mínútu leiksins varð ljóst að Edwin van der Sar hefði sett met á Bretlandseyjum með því að halda marki sínu hreinu þegar hann sló met Bobby Clark, markvarðar Aberdeen. Það var sett leiktíðina 1970-71 en hann hélt hreinu í 1156 mínútur.

Manchester United hefur 56 stig í efsta sæti deildarinnar og á leik til góða á Liverpool sem hefur 54 stig í öðru sætinu. Aston Villa er í þriðja sæti með 51 stig og Chelsea hefur 49 stig í fjórða sæti.

West Ham er í ágætum málum í 8. sæti deildarinnar með 33 stig.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×