Enski boltinn

Torres bjargaði Liverpool

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Frank Lampard fékk að líta rauða spjaldið í dag.
Frank Lampard fékk að líta rauða spjaldið í dag. Nordic Photos / Getty Images
Fernando Torres tryggði Liverpool sigur á Chelsea í toppslag ensku úrvalsdeildarinnar í dag með tveimur síðbúnum mörkum.

Smelltu hér til að sjá samantekt úr leiknum.

Ekkert markvert gerðist í fyrri hálfleik en eftir að Frank Lampard fékk að líta rauða spjaldið í síðari hálfleik fór Liverpool að sækja.

Heimamenn uppskáru með tveimur mörkum undir lok leiksins og í bæði skiptin var Fernando Torres markaskorarinn. Liverpool hafði gert fjögur jafntefli í röð og var lengi vel útlit fyrir að það fimmta myndi líta dagsins ljós nú.

Liverpool hefur nú minnkað forystu Manchester United á toppi deildarinnar í tvö stig en síðarnefnda liðið á þó enn leik til góða.

Liverpool er þó komið með þriggja stiga forystu á bæði Chelsea og Aston Villa sem eru með bæði með 48 stig eftir leiki helgarinnar.

Luiz Felipe Scolari stillti upp óbreyttu liði frá síðasta leik en það voru þrjár breytingar gerðar á byrjunarliði Liverpool.

Lucas Leiva, Yossi Benayoun og Ryan Babel voru allir settir á bekkinn en þeir Xabi Alonso, Dirk Kuyt og Albert Riera komu inn. Þá var Robbie Keane ekki í leikmannahópnum eins og sagt var frá fyrr í dag.

Fyrri hálfleikur var afar tíðindalítill. Liverpool átti fjögur skot í hálfleiknum og öll að marki en Chelsea eitt sem þar að auki hæfði ekki rammann.

En snemma í fyrri hálfleik var Mike Riley dómari í sviðsljósinu. Fyrst braut Steven Gerrard af sér með tæklingu á John Obi Mikel en fékk þó aðeins tiltal fyrir. Frank Lampard, fyrirliði Chelsea, var ekki eins heppinn.

Lampard fór í tæklingu á móti Xabi Alonso og mat Riley hana sem hættulega. Lampard hlaut rautt spjald fyrir en ákvörðun hans þótti umdeilanleg svo ekki sé meira sagt.

Skömmu síðar átti Alonso skot að marki Chelsea en Alex fleygði sér fyrir skotið og af honum skoppaði boltinn ofan á þaknetið á marki gestanna.

Fernando Torres átti svo skot að marki eftir að hafa tekið niður hornspyrnu en í þetta sinn var Mikel vel á verði.

Benayoun átti svo tvær marktilraunir með skömmu millibili en Petr Cech varði fyrra skotið og það síðara fór hárfínt yfir slána.

En svo kom að því að eitthvað lét undan. Þegar ein og hálf mínúta var eftir gaf Steven Gerrard boltann á Fabio Aurelio á vinstri kantinum. Hann náði fyrirgjöfinni og á sama tíma náði Torres að stinga Alex af og skora með skalla á nærstönginni.

Þar með brast stíflan. Torres skoraði síðara markið í uppbótartíma eftir að hafa fylgt eftir skoti Yossi Benayoun sem var varið af varnarmanni. Ashley Cole gerði sig sekan um slæm mistök er hann hleypti Benayoun inn fyrir sig.

Torres var svo tekinn af velli eftir síðara markið en það kom þó ekki að sök í þetta skiptið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×