Innlent

Ákærður fyrir alvarleg kynferðisbrot - í fyrsta sinn í sögu unglingaheimila

Búið er að gefa úr ákæru á hendur manni á fertugsaldri vegna alvarlegra kynferðisbrota gagnvart unglingsstúlkum á meðferðarheimilinu Árbót í Aðaldal. Starfsmaður slíks heimilis hefur aldrei áður verið ákærður fyrir slík brot í sögu unglingaheimila hér á landi.

Maðurinn hafði áður verið kærður fyrir að misnota tvær unglingsstúlkur en ekki var ákært í málinu þar sem framburður þeirra stangaðist á. Maðurinn neitaði sök og var því málið fellt niður.

Maðurinn var í kjölfarið fluttur á annað meðferðarheimili. Þar starfaði hann þangað til það var lagt niður. Maðurinn hóf svo aftur störf á meðferðarheimilinu í Aðaldal.

Þá sakaði þriðja stúlkan hann um að hafa beitt sig kynferðislegu ofbeldi. Lögreglan hóf rannsókn. Að lokum var gefin út ákæra á hendur manninum. Maðurinn var ákærður fyrir að misnota tvær stúlkur. Ásökunum þeirra þriðju var vísað frá.

Maðurinn hefur ekki áður verið dæmdur fyrir kynferðisbrot.

„Þetta er í fyrsta skiptið sem ákæra er gefin út á hendur starfsmanns meðferðarheimilis hér á landi," segir Bragi Guðbrandsson, forstjóri Barnaverndarstofu. Hann segir það merkilegt og hugsanlega teikn um nýja tíma varðandi meðferðarheimili hér á landi.

Það var lögreglan á Akureyri sem rannsakaði málið. Samkvæmt heimildum Vísis eru meint brot mannsins gagnvart stúlkunum alvarleg.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×