Erlent

Meintur 14 barna faðir vill DNA-próf

Atli Steinn Guðmundsson skrifar
Denis Beaudoin.
Denis Beaudoin. MYND/Dailycontributor.com

Fyrrverandi kærasti konunnar, sem eignaðist áttbura í lok janúar, segist hugsanlega vera faðir 14 barna hennar og fer fram á faðernispróf.

Hinn fjórtánfaldi faðir, ef satt reynist, heitir Denis Beaudoin og sagðist í viðtali við ABC-sjónvarpsstöðina í gær hafa gefið ofurmóðurinni Nadyu Suleman sæði úr sér meðan á sambandi þeirra stóð á ofanverðum tíunda áratug síðustu aldar. Nadya hafi þá tjáð honum að hún hefði krabbamein í eggjastokkum og yrði að hafa snör handtök ætlaði hún sér að eignast börn.

Þau hafi svo í framhaldinu heimsótt sjúkrahús sem aðstoðaði þau við að hrinda ætlunarverkinu í framkvæmd. Það hafi hins vegar flækt málin að Beaudion hafi verið kvæntur annarri konu meðan á sambandi þeirra Suleman stóð.

Fyrir liggur í málinu að áttburarnir sem Suleman eignaðist í janúar og sex börn, sem hún átti fyrir, hafi orðið til við tæknifrjóvgun þar sem notað var sæði óþekkts sæðisgjafa. Beaudoin segist nú vilja fá það á hreint með aðstoð vísindanna hvort börnin séu afkomendur hans og lái honum hver sem vill. Hver vill svo sem ekki fá það á hreint hvort hann eigi 14 börn eða ekki?






Fleiri fréttir

Sjá meira


×