Innlent

Uppsagnir og niðurskurður fram undan

Guðbjartur Hannesson, formaður fjárlaganefndar.
Guðbjartur Hannesson, formaður fjárlaganefndar.

Innan ráðuneytanna er unnið að tillögum um hvernig skorið verður niður í fjárlagafrumvarpi næsta árs. Stefnt er að því að ná inn tekjum eða skera niður fyrir um 56 milljarða árið 2010.

Hugmyndir voru uppi um að þingið hefði sterka aðkomu að fjárlagagerðinni, en nú er stefnt að því að slíta þingi að lokinni afgreiðslu á ríkisábyrgð vegna Icesave. Þing kemur ekki saman aftur fyrr en í október og þá verður fjárlagafrumvarpið lagt fram. Þá verður einnig lagt fram frumvarp til fjáraukalaga, en stoppa á í 22 milljarða gat með því.

Fjárlaganefnd vann í sumar ramma fyrir fjárlagavinnuna og segir Guðbjartur Hannesson, formaður hennar, að þar hafi forsendur verið unnar fyrir árið 2010. Samkvæmt forskriftinni á að skera niður um fimm prósent í velferðar­þjónustu, sjö prósent í menntastofnunum og tíu prósent í stjórnsýslu- og eftirlitsstofnunum.

Málið er þó ekki svo einfalt og til dæmis verður skorið niður um allt að tíu prósent í ýmsum stofnunum heilbrigðisráðuneytisins. Alls nemur niðurskurður þar rúmlega sex prósentum og er nokkur urgur innan heilbrigðisgeirans.

Undirstofnanir ráðuneyta hafa unnið að tillögum um hvar megi skera niður. Ljóst er að segja verður upp starfsfólki; hve mörgum kemur í ljós í október. Málið hefur ekki verið rætt í ríkisstjórn síðan í júní.

Guðbjartur segir að fjárlaganefnd muni fylgjast með fjárlagagerðinni nú. „Við munum kíkja yfir öxlina á þeim."- kóp








Fleiri fréttir

Sjá meira


×