Innlent

Ekkert gert með umbeðin álit

Á Alþingi. Icesave-málið verður rætt efnislega á morgun.
fréttablaðið/valli
Á Alþingi. Icesave-málið verður rætt efnislega á morgun. fréttablaðið/valli

Þingmenn stjórnarandstöðunnar – einkum Sjálfstæðisflokksins – harma að nefndarálit um Icesave-frumvarpið hafi verið afgreitt úr fjárlaganefnd í fyrrakvöld. Telja þeir málið hafa verið óútrætt og furða sig á að ekkert hafi verið gert með álit efnahags- og skattanefndar um málið sem fjárlaganefnd bað þó sérstaklega um.

Kristján Þór Júlíusson, Einar K. Guðfinnsson, Birgir Ármannsson og Pétur H. Blöndal, Sjálfstæðisflokki, gagnrýndu stjórnarliða harðlega fyrir framgönguna. Sagði Pétur störf efnahags- og skattanefndar vanvirt, hann hafi varið löngum tíma í verk sem svo ekkert var gert með.

Guðbjartur Hannesson, formaður fjárlaganefndar, sagði málið hafa verið fullreifað í nefndinni og að álit efnahags- og skattanefndar hefðu engu bætt við. Afstaða stjórnmálaflokkanna til málsins lægi fyrir og því hafi hann ekki talið þjóna tilgangi að lengja umfjöllunina.

Önnur umræða um Icesave-málið fer fram í þinginu á morgun. - bþs




Fleiri fréttir

Sjá meira


×