Innlent

Starfsmennirnir kvarta ekki

Yfir 100 starfsmenn starfa hjá Alþingi og ekki er ljóst hvenær þingi verður frestað.fréttablaðið/stefán
Yfir 100 starfsmenn starfa hjá Alþingi og ekki er ljóst hvenær þingi verður frestað.fréttablaðið/stefán

Starfsmenn Alþingis hafa ekki getað fengið sumarleyfi jafnauðveldlega og áður vegna sumarþingsins. „Einhverjir voru vissulega búnir að skipuleggja sín frí og þurfa að breyta því en við reynum að leysa það,“ segir Karl M. Kristjánsson, rekstrarstjóri Alþingis.

Karl vonast til að hægt sé að fá starfsmenn til að taka sem allra minnst frí nú um hásumarið. Venjulega hafi Alþingi getað boðið fólki að taka frí um hásumar en það sé öðruvísi núna. Hann segir fólk hins vegar ekki kvarta. Starfsmenn geri sér ljóst að óvenjuleg staða sé uppi.

Auðveldara er til dæmis fyrir starfsmenn í bókhalds- og fjármáladeild að taka sér sumarleyfi á meðan starfsfólk á nefndarsviði á erfiðara með að fá sumarleyfi, að sögn Karls. Alþingi ræður sér ekki sumarafleysingafólk til að taka við störfum á meðan starfsmenn taka sér sumarleyfi. Starfsmenn séu hins vegar duglegir að færa til verkefni, að sögn Karls.

Yfir 100 manns vinna hjá Alþingi. Ekki er ljóst hvenær þingi verður frestað en haustþing hefst 1. september. „Þegar starfsfólk hefur lokið verkefnum eftir að þingi lýkur, þá reynum við að koma fólki í sín lögbundnu og nauðsynlegu frí áður en það byrjar að undirbúa þinghaldið aftur,“ segir Karl.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×