Enski boltinn

Hull fengið sjö stig af síðustu 39 mögulegum

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Jimmy Bullard heilsar upp á stuðningsmenn Hull fyrir leik liðsins gegn Millwall í ensku bikarkeppninni.
Jimmy Bullard heilsar upp á stuðningsmenn Hull fyrir leik liðsins gegn Millwall í ensku bikarkeppninni. Nordic Photos / Getty Images
Þann 1. nóvember síðastliðinn mættu nýliðar Hull á Old Trafford með 20 stig í farteskinu og mikinn baráttuvilja sem varð til þess að liðið skoraði þrjú mörk í leiknum en tapaði þó, 4-3.

Þegar leikurinn hófst var Hull meira að segja með tveimur stigum meira en United sem átti þó leik til góða. En engu að síður glæsilegur árangur hjá Hull sem er nú í efstu deild í fyrsta sinn í sögu félagsins.

Síðan að liðið fékk 20 stig úr fyrstu níu leikjum liðsins hefur Hull aðeins unnið einn leik af þrettán og gert fjögur jafntefli. Liðið hefur því fengið samtals sjö stig af 39 mögulegum.

En þrátt fyrir það hefur liðið ekki fallið neðar en í níunda sæti deildarinnar. Því má þakka að liðin í neðri hluta deildarinnar hafa verið einkar dugleg að hirða stig hvert af öðru enda munar ekki nema sex stigum á Hull og botnliðunum fjórum sem öll eru með 21 stig.

Þegar heildarárangur liða í síðustu átta leikjum er skoðaður kemur í ljós að Hull er með þriðja versta árangurinn allra liða í deildinni. Liðið mætir í kvöld West Ham sem er einu sæti ofar í stigatöflunni en hefur þó gengið mun betur í síðustu umferðum. West Ham er á ágætri siglingu og er í sjöunda sæti þegar árangur liðanna í síðustu átta umferðum er tekinn saman.

Phil Brown knattspyrnustjóri hefur látið til sín taka á leikmannamarkaðnum og keypti á dögunum Jimmy Bullard frá Fulham fyrir fimm milljónir punda sem er félagsmet.

„Hann æfði með okkur í fyrsta sinn í dag og það er greinilegt að þetta er klassaleikmaður," sagði Brown í samtali við enska fjölmiðla í gær. „Hann reynir að spila fótbolta eins og á að spila hann og vonandi hefur það góð áhrif á allt liðið. Hann vill spila og berjast fyrir félagið, jafnvel gegn sínu gamla félagi. Það er að mínu viti góðs viti."

Bullard hóf atvinnumannaferil sinn með West Ham sem leikur á heimavelli gegn Hull City í kvöld klukkan 20.00.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×