Innlent

Búið að ræða við Hollendinga og Breta um breytingartillögurnar

Stjórnvöld hafa kynnt breytingartillögur fjárlaganefndar Alþingis á ríkisábyrgð vegna Icesave samkomulagsins fyrir Bretum og Hollendingum. Þjóðirnar bíða með viðbrögð þar til Alþingi hefur lokið umræðum um málið. Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra telur að það gæti orðið þrautin þyngri að sannfæra ráðamenn þjóðanna um að fallast á breytingarnar. Önnur umræða um frumvarpið fer væntanlega fram í vikunni.

Ráðherrann segir að stjórnvöld hafi verið í stöðugi sambandi við Hollendinga og Breta - síðast í dag. Eftir að meirihlutaálit fjárlaganefndar var samþykkt í fyrrakvöld var farið í að þýða tillögurnar. Þær hafa nú verið afhendar Hollendingum og Bretum.

Össur segir að lögð hafi verið mjög sterk áhersla á það við Breta og Hollendinga að málið sé á forræði þingsins og önnur umræða hafi ekki enn farið fram, þannig að ekki sé hægt að útiloka breytingar á þessu stigi málsins.

Einnig hefur verið rætt við sendiherra þjóðanna og í morgun var farið rækilega yfir málið með fulltrúa Alþjóðagjaldeyrissjóðsins á Íslandi.

Utanríkisráðuneytið mun funda með erlendum sendiherrum til að fara yfir stöðu mála á morgun.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×