Innlent

„Við getum alveg eins skilið barnið okkar eftir á umferðareyju“

Sex ára drengur hefur orðið fyrir ítrekuðu ofbeldi af hálfu skólabróður síns í Hamraskóla í Grafarvogi, meðal annars verið barinn og stunginn með oddhvössum blýanti. Faðir drengsins segir skólastjórnendur hafa brugðist.

Fjölskyldan var búsett erlendis, en flutti til Íslands um áramótin svo drengurinn gæti farið í skóla hérlendis. Drengurinn var í fyrstu ánægður í Hamraskóla, en fljótlega sagði hann frá því að skólabróðir hans hefði veist að honum. Foreldrar drengsins héldu að um einstakt tilvik væri að ræða, en svo reyndist ekki vera.

„Hann var sleginn þrisvar sinnum strax í byrjun janúar. Einnig kýldur í magann. Síðan er hann stunginn í bakið og sleginn aftur. Síðan er rispaður á handleggnum. Í bæði skiptin voru myndir teknar og í seinna atvikinu fengum við áverkavottorð. Í gær hann var hann síðan sleginn aftur."

Drengurinn hefur verið mjög kvíðinn og neitað að fara í skólann. Faðirinn segir skólastjórnendur hafa brugðist í málinu og svo hann sá þann kost einan að taka drenginn úr skólanum.

Faðirinn segir að úrlausnum hafi verið lofað en ekkert hafi gerst. „Við getum alveg eins skilið barnið okkar eftir á umferðareyju."

Skólastjóri Hamraskóla sagði í samtali við fréttastofu að tvær hliðar væru á öllum málum. Hann kveður kennara og fagfólk hafa brugðist við um leið og málið hafi fyrst komið upp, rætt hafi verið við foreldra og mikil gæsla sé í kringum börnin. Nú hafi verið leitað til menntasviðs Reykjavíkurborgar og þjónustumiðstöðvar Grafarvogs til að koma með tillögur um úrbætur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×