Innlent

Mikilvægt skref til að tryggja rekstur Egilshallar

Hanna Birna Kristjánsdóttir, borgarstjóri.
Hanna Birna Kristjánsdóttir, borgarstjóri. Mynd/Rósa J.
Borgarráð samþykkti á fundi sínum í dag þjónustu- og afnotasamning við nýja Landsbankann um Egilshöll í Grafarvogi. Í samningnum er gert ráð fyrir að til vors 2010 muni íþróttaaðstaðan í Egilshöll verða nýtt meira en verið hefur. Hanna Birna Kristjánsdóttir, borgarstjóri, segir þetta mikilvægt skref í átt að því að tryggja rekstur Egilshallar.

Samkvæmt samkomulaginu mun Ungmennafélagið Fjölnir flytja að hluta með skrifstofur sínar og höfuðstöðvar í Egilshöll. Einnig mun ÍTR fá aðstöðu fyrir frístundaheimili fyrir fötluð grunnskólabörn úr Grafarvogshverfum í húsinu.

Landsbankinn mun ráðast í framkvæmdir og verður meðal annars farið í framkvæmdir við lóð og bifreiðastæði auk þess sem ýmsar lagfæringar og framkvæmdir munu eiga sér stað í Egilshöll. „Þá er gert ráð fyrir því að síðar á árinu verði farið yfir rekstur og afnot af Egilshöllinni til næstu ára. Sérstakt rekstrarfélag á vegum Landsbankans mun annast rekstur Egilshallarinnar," segir í tilkynningu frá Reykjavíkurborg.

Þar er jafnframt haft eftir Hönnu Birnu að með samkomulaginu sé því forðað að íþróttastarfsemi fyrir börn og unglinga í Egilshöll verði í óvissu næsta vetur.

„Að auki tryggir niðurstaðan framtíðaraðstöðu fyrir Ungmennafélagið Fjölni í stað áður áformaðrar uppbyggingar, aðstöðu fyrir frístundaheimili fyrir fötluð grunnskólabörn og blómlega starfsemi í húsinu til lengri framtíðar," segir Hanna Birna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×