Innlent

Yfir 40 þúsund manns með erlend bílalán

Hafsteinn Gunnar Hauksson skrifar
Gylfi Magnússon, viðskiptaráðherra.
Gylfi Magnússon, viðskiptaráðherra.

Alls eru 40.414 manns með lán í erlendri mynt að hluta eða heild þar sem bifreið viðkomandi er sett að veði. Þetta kom fram í svari Gylfa Magnússonar, viðskiptaráðherra, við fyrirspurn Birkis Jóns Jónssonar, þingmanns Framsóknar, á Alþingi rétt í þessu.

Verðmæti þessara lána eru rúmir 155 milljarðar. Í fyrirspurninni var einnig spurt um verðmæti bifreiðanna sem liggja að baki lánunum. Viðskiptaráðherra sagði nær ómögulegt að segja til um það, enda spilaði margt inn í. Nefndi hann þróun á markaði, þróun gengis krónunnar, verð á bílum og hið alkunna lögmál um framboð og eftirspurn.

Jafnframt kom fram í máli Gylfa að dreifing bílaskulda væri í takt við tekjudreifingu heimila. Langflest heimili verja innan við fimmtungi ráðstöfunartekna sinna í greiðslur af slíkum lánum, en ellefu prósent verja yfir 30 prósentum tekna sinna í afborganir bílalána.

Gylfi sagði þó misjafnlega mikið eftir af lánstímanum svo í einhverjum tilfellum myndu málin leysast  af sjálfu sér þegar lánin eru greidd upp.

Þá kom fram að starfshópur á vegum viðskipta-, félags- og dómsmálaráðuneytisins ynni að því að kanna hvort hægt sé að grípa til aðgerða vegna bílalána í erlendri mynt. Starfshópurinn fundaði í gær með forsvarsmönnum fyrirtækja sem veita erlend bílalán.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×