Fótbolti

Eiður Smári á ekki von á að spila með stráknum sínum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sveinn Aron tekur við viðurkenningu á hófi Íþróttamanns ársins fyrir hönd föður síns.
Sveinn Aron tekur við viðurkenningu á hófi Íþróttamanns ársins fyrir hönd föður síns. Mynd/Stefán

Strákarnir hans Eiðs Smára Guðjohnsen voru áberandi í þættinum um Atvinnumennina okkar á Stöð 2 Sport í gær en tveir þeir eldri eru farnir að spila með yngri flokkum Barcelona. Strákarnir komu líka upp á svið í byrjun ársins og tóku móti verðlaunum pabba síns fyrir að vera meðal tíu efstu í kosningunni á Íþróttamanni ársins. Sveinn Aron verður 11 ára á maí og bróðir hans Andri Lucas er nýorðin sjö ára. Yngsti bróðurinn, Daníel Tristan, verður þriggja ára í mars.

Það hefur oft verið rifjað upp þegar Arnór, faðir Eiðs Smára, sagðist ætla að spila með stráknum sínum og hversu litlu munaði að þeir feðgar spiluðu saman með landsliðinu. Fréttablaðið ræddi við Eið Smára um áramótin um þann möguleika að hann myndi spila með strákunum sínum.

"Elsti strákurinn minn er tíu ára í dag ef að við reiknum með að hann komist í landsliðið 17 ára þá þarf ég að spila í sjö ár í viðbót. Ég sé það ekki gerast eins og staðan er í dag en það getur vel verið að ég verð ennþá í fullu fjöri eftir fimm ár," sagði Eiður Smári og bætti síðan við. "Ég hætti áður en ég verð kallaður gamla brýnið. Ef ég les það einhverstaðar þá hætti ég. Ég sé ekki fyrir mér að koma heim þegar ég hætti og ég held að þetta verði ekki hægur dauði," sagði Eiður Smári.

Eiður Smári ætlar heldur ekki að enda í vörninni. "Ég nenni ekki að elta einhverja unga framherja sem eru að stinga sér innfyrir. En ég sé mig alveg færast aftar eins og hefur gerst á undanförnum tveimur til þremur árum," segir Eiður en framundan er að einbeita sér að spila fyrir stórlið Barcelona sem á möguleika á þrennunni í vetur.

"Ég sé fyrir mér að klára saminginn hjá Barcelona, sem er þetta tímabil og næsta tímabil. Síðan ætla ég bara að skoða þá möguleika sem verða fyrir hendi og hvernig ástandið verður á mér þá. Ég ætla að njóta þess að spila knattspyrnu," sagði Eiður Smári í viðtali við Fréttablaðið um áramótin.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×