Markmiðið með lokun á skrifstofu Ferðamálastofu í Kaupmannahöfn er að spara í rekstri til að eiga aukið fé í kynningarverkefni.
„Þetta tengist auknu samstarfi iðnaðarráðuneytis og utanríkisráðuneytis í kynningarmálum ferðaþjónustunnar," segir Helga Haraldsdóttir skrifstofustjóri ferðamála hjá iðnaðarráðuneyti. Hún bendir á að skrifstofa Ferðamálastofu í Kaupmannahöfn sé í sama húsnæði og sendiráðið og því möguleiki að spara í rekstrinum með þessum hætti.
Danski ferðamálavefurinn Standby.dk greindi frá því í gær að Ferðamálastofa hyggðist loka öllum skrifstofum sínum erlendis. Auk skrifstofunnar í Kaupmannahöfn rekur Ferðamálastofa rekur einnig skrifstofur í Frankfurt og New York. Helga segir að verið sé að skoða sambærilegar breytingar á skrifstofunni í Frankfurt.