Innlent

Enn gustar um bæjarstjórn Kópavogs

Bæjarfulltrúar Framsóknar og Samfylkingar sem sátu í stjórn Lífeyrissjóðs starfsmanna Kópavogs standa enn við sínar fullyrðingar um að þeir hafi verið blekktir. Gögn sem sýna fram á hið gagnstæða hafa komið fram. Oddviti Vinstri grænna í bænum segir að þeir verði alvarlega að íhuga stöðu sína sem bæjarfulltrúar.

Efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjóra rannsakar nú málefni lífeyrissjóðs starfsmanna Kópavogsbæjar. Stjórn sjóðsins er grunuð um brot á lífeyrissjóðslögum og almennum hegningarlögum. Þá er hún sökuð um að hafa beitt blekkingum og gefið Fjármálaeftirlitinu rangar upplýsingar um lánveitingar sjóðsins.

Fyrrverandi stjórnarmenn sjóðsins þeir Ómar Stefánsson oddviti Framsóknar og Flosi Eiríksson bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar hafa báðir lýst því yfir að þeir hafi verið beittir blekkingum og upplýsingum við Fjármálaeftirlitið hafi verið haldið leyndum. Þetta sagði Flosi síðasta sunnudag.

Morgunblaðið hins vegar greindi frá því í gær með birtingu tölvupósta á milli stjórnarmanna lífeyrissjóðsins að þeim hefði átt að vera fullkunnugt um lánveitingar hans til Kópavogsbæjar og að sjóðurinn hefði farið út fyrir lagaheimildir með þeim lánveitingum. Þá áttu þeir einnig að hafa verið upplýstir um öll samskipti við Fjármálaeftirlitið.

Ólafur Þór Gunnarsson oddviti Vinstri grænna í bæjarstjórn Kópavogs segir málið alvarlegt. Hann segir að Ómar og Flosi verði alvarlega að íhuga stöðu sína sem bæjarfulltrúar.

Hvorki Ómar né Flosi vildu veita fréttastofu viðtal í dag en segjast hvorugir hafa tekið afstöðu til þess hvort þeir eigi að víkja á meðan rannsókn stendur yfir. Þeir segja fullyrðingar sínar standa um að þeir hafi verið beittir blekkingum í málinu.


Tengdar fréttir

Vill að Flosi og Ómar íhugi að víkja sem bæjarfulltrúar

Bæjarfulltrúi Vinstri grænna í Kópavogi telur eðlilegt að bæjarfulltrúarnir Flosi Eiríksson og Ómar Stefánsson íhugi stöðu sína sem bæjarfulltrúar í ljósi fréttar Morgunblaðsins í gær þess efnis að þeir hafi sem stjórnarmenn í Lífeyrissjóði starfsmanna Kópavogsbæjar vitað að ekki væru allar upplýsingar gefnar til Fjármálaeftirlitsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×