Innlent

Frambjóðendur eyða í auglýsingar

Frambjóðendur í prófkjörum Sjálfstæðisflokks eyddu mörg hundruð þúsund krónum í blaðaauglýsingar síðustu tvo dagana fyrir kosningar. Formaður yfirkjörstjórnar Sjálfstæðisflokks í Reykjavík segir þó minna auglýst nú en áður.

Þegar flétt er í gegnum blöðin fer ekki á milli mála að það eru kosningar í nánd. Á nánast hverju einustu síðu eru auglýsingar frá frambjóðendum.

Frambjóðendur í prófkjöri Sjálfstæðisflokks í Reykjavík eru mest áberandi sé aðeins horft til auglýsinga í Fréttablaðinu og Morgunblaðinu í gær og í dag.

Alls birtust 54 auglýsingar frá frambjóðendum Sjálfstæðisflokks í þessum blöðum á umræddu tímabili.

Auglýsingar frá frambjóðendum í prófkjöri Samfylkingarinnar eru töluvert færri eða fjórar talsins.

Ætla má að hver auglýsing kosti á bilinu 30 til 100 þúsund krónur - eftir stærð og staðsetningu. Því má áætla að heildar kostnaður fyrir auglýsingarnar 58 sé á bilinu tvær til þrjár milljónir króna.

Auglýsingabann er í gildi hjá frambjóðendum í prófkjörum Samfylkingarinnar í Reykjavík en þó er leyfilegt að auglýsa ákveðna viðburði. Kostnaður má þó ekki fara yfir 300 þúsund krónur.

Formaður yfirkjörstjórnar Sjálfstæðisflokks segir minna auglýst nú en áður og telur sýnt að menn hafi sparað verulega hvað auglýsingar varðar.












Fleiri fréttir

Sjá meira


×