Innlent

Eigandi vegatálmajeppa: Hugsaði bara um öryggi almennings

Hafsteinn Gunnar Hauksson skrifar
Nissan Patrol, samskonar bíll og sá sem notaður var í vegatálmann.
Nissan Patrol, samskonar bíll og sá sem notaður var í vegatálmann. Mynd/Njáll

„Hann var beðinn um að jeppinn yrði notaður sem vegatálmi og það var ekkert mál," segir Ásthildur Ragnarsdóttir, eigandi annarrar bifreiðarinnar sem stóð til að nota til að stöðva bílþjófinn í Hvalfirði á sunnudag.

Eiginmaður hennar var á ferð um fjörðinn þegar hann dróst inn í atburðarás bílstuldar, eftirfarar og óðsmannsaksturs sem endaði með því að bílþjófur var þvingaður út í skurð í Hvalfirðinum.

Að sögn Ásthildar var eiginmaðurinn annar tveggja jeppaeigenda sem lánuðu bílana sína í vegatálma til að stöðva manninn, þó reyndar segi í bókun lögreglu að önnur bifreiðin hafi verið rúta.Ökufanturinn ók þó út af áður en hann kom að tálmanum.

Konan segir ekki rétt að bíllinn hafi verið gerður upptækur, heldur hafi hann verið fenginn að láni með fullu samþykki eiginmannsins. Hún segist halda að hinn ökumaðurinn hafi jafnframt boðið fram aðstoð sína af fúsum og frjálsum vilja.

Mennirnir veittu aðstoð sína með vísan til laga sem heimilar lögreglumönnum að kveða óbreytta borgara sér til aðstoðar, og njóta þeir þá sömu verndar og lögreglumennirnir. Í henni felst meðal annars bótagreiðsla úr ríkissjóði fyrir munatjón.

„Hann hugsaði bara um öryggi almennings," segir Ásta að lokum um fórnfýsi eiginmannsins.




Tengdar fréttir

Bílar í einkaeigu notaðir við lögregluaðgerðir

Jeppi og rúta í einkaeigu voru meðal þeirra farartækja sem notuð voru til að stöðva ökuníðinginn sem ók stolnum bíl á ofsahraða undan lögreglu inn Hvalfjörðinn í gærkvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×