Innlent

Óvíst með framvindu Héðinsfjarðarganga

Óvissa ríkir um framvindu Héðinsfjarðarganga, þar sem kostnaður við framkvæmdina hefur stóraukist. Tékkneski verktakinn Metrostav á í vandræðum með að klára verkið.

Fall krónunnar og ýmsar kostnaðarhækkanir hafa orðið til þess að tékkneski verktakinn Metrostav er í vandræðum með að klára Héðinsfjarðargöng. Fyrirtækið á nú í viðræðum við Vegagerðina vegna málsins þar sem farið er fram á að Vegagerðin komi að einhverju leyti til móts við fyrirtækið.

Metrostav bauð lægst í göngin og hefur unnið ásamt Háfelli að framkvæmdum sem hafa dregist nokkuð vegna vatnsaga. Þegar bankarnir hrundu sem og gengið versnuðu enn aðstæður fyrirtækisins. Skömmu fyrir jól óskuðu talsmenn Metrostav eftir fundum með Vegagerðinni og standa viðræður yfir.

G. Pétur Matthíasson upplýsingafulltrúi hjá Vegagerðinni segir að forráðamenn Metrostav hafi dregið upp dökka mynd af stöðu sinni stöðu vegna verksins. Að óbreyttu verður slegið í gegn í mars en dýrari hluti Héðinsfjarðarganga, einhverrar umdeildustu samgönguframkvæmdar landsins, er þá eftir. Vegagerðin vill ekki svara því að óbreyttu hvort ríkið muni koma á móts við verktakann en það myndi þýða enn aukinn kostnað fyrir skattgreiðendur. Í upphafi var kostnaður ganganna metinn á 7 milljarða en ljóst er að sú fjárhæð hefur þegar hækkað töluvert vegna verðbólgu og vaxta.

Samtals var í gær búið að sprengja 9.832 m eða 93% af heildarlengd en 738 metrar eru eftir.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×