Innlent

Stendur ekki til að umbylta rekstri Strætós

Jórunn Frímannsdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, er stjórnarformaður Strætós bs.
Jórunn Frímannsdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, er stjórnarformaður Strætós bs. Mynd/Anton Brink
Jórunn Frímannsdóttir, borgarfulltrúi og stjórnarformaður Strætós bs, segir að ekki standi til að ráðast í róttækar breytingar á rekstri byggðarsamlagsins. Hún segir ýmislegt jákvætt í nýlegum tillögum sem ráðgjafarfyrirtæki vann að beiðni stjórnar Samtaka sveitarstjórna á höfuðborgarsvæðinu.

Í Fréttablaðinu í dag kemur fram að samkvæmt tillögum Par-x viðskiptaráðgjafar IBM verði rekstur á öllum strætisvögnum á höfuðborgarsvæðinu boðin út til einkaaðila. Inntakið í tillögum fyrirtækisins er að Strætó verði eins konar sérfræðistofnun sem skipuleggi og tryggi almenningssamgöngur og annist síðan útboð á sjálfum rekstri vagnanna. Þetta myndi meðal annars þýða uppsagnir vagnstjóra og sölu á strætisvögnunum.

Jórunn bendir á að um tillögur sé að ræða. Ekki hafi verið tekin nein ákvörðun og ekki standi til að umbylta rekstri Strætós. Engin áform séu um að skerða þjónustuna eða segja starfsfólki upp. Þá segir Jórunn að í tillögunum komi fram skýr vilji sveitarfélaganna sem standa að rekstri Strætós til að halda samstarfinu áfram.

Rekstur byggðarsamlagsins hefur gengið vel á þessu ári, að sögn Jórunnar. Fyrirtækið hafi skilað afgangi í fyrsta sinn í langan tíma og tekist hafi að greiða ákveðið lán. Aftur á móti segir Jórunn að ekki megi mikið út af bregða og að stjórnendur Strætós taki mið af efnahagsástandinu í áætlunum sínum. Til að mynda sé ekki gert ráð fyrir að kaupa nýja strætisvagna á næsta ári.




Tengdar fréttir

Strætó bjóði út allan rekstur strætisvagna

Rekstur á strætisvögnum á höfuðborgarsvæðinu verður boðinn út til einkaaðila, verði farið að tillögum Par-x viðskiptaráðgjafar IBM, sem skilað hefur skýrslu til stjórnar Samtaka sveitarstjórna á höfuðborgar­svæðinu. Mikill hallarekstur hefur verið á rekstri byggðarsamlagsins Strætó bs. Sveitarfélögin sem eiga Strætó leggja nú afar mikla áherslu á að þau þurfi ekki að bera neinar viðbótar byrðar vegna strætisvagnarekstursins. Meðal annars hefur verið brugðist við því með ákvörðun um að Strætó kaupi enga nýja vagna á næsta ári.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×