Innlent

Samfylkingin ber við trúnaði og neitar að gefa upp helstu styrktaraðila

Forysta Samfylkingarinnar.
Forysta Samfylkingarinnar. Mynd/Daníel Rúnarsson
Framkvæmdastjóri Samfylkingarinnar neitar að gefa upp hverjir voru helstu styrktaraðilar flokksins á árinu 2006. Sýna þurfi styrkjendum trúnað. Framlag FL Group til Sjálfstæðisflokksins undir lok þess árs, nam ríflega helmingi af samanlögðum framlögum lögaðila til flokksins árið eftir.

„Ég mun ekki gefa upp framlög frá einstökum lögaðilum eða einstaklingum fyrir árið 2006," sagði Sigrún Jónsdóttir, framkvæmdastjóri Samfylkingarinnar í samtali við Fréttastofu í morgun. Hún vísar til þess að þá hafi önnur lög gilt um fjármál stjórnmálaflokkanna og Samfylkingunni beri ekki lagaskylda til að upplýsa um þetta. Samfylkingin sýni þeim sem styrkja flokkinn trúnað í þessum efnum.

Hún segir þó, sem áður hefur komið fram, að framlög einstaklinga og lögaðila hafi numið fjörutíu og fimm milljónum króna þetta ár. Kosið var til Alþingis vorið 2007. Það ár námu framlög lögaðila til Samfylkingarinnar tuttugu og þremur og hálfri milljón króna. Sama ár fengu framsóknarmenn tuttugu og átta og hálfa milljón króna í styrki frá lögaðilum.

Fyrsta janúar árið 2007 tóku gildi lög um fjármál stjórnmálaflokkanna, þar sem kveðið er á um hámarksstyrki frá einstökum aðilum og að flokkunum beri að birta bókhald sitt. Sjálfstæðisflokkurinn fékk það ár 56 milljónir króna í styrki frá lögaðilum. Skömmu fyrir áramótin tók flokkurinn við þrjátíu milljónum króna frá FL Group. Framlagið frá FL undir lok ársins nemur því ríflega helmingi allra styrkja frá lögaðilum sem Sjálfstæðisflokkurinn fékk á kosningaári.

Sjálfstæðisflokkurinn var einn flokka með jákvæða eiginfjárstöðu í árslok 2007; hátt í fjögur hundruð milljónir króna.

Eigið fé Samfylkingarinnar var neikvætt um 27 milljónir; annað eins hjá Vinstri Grænum og Frjálslynda flokknum. Eigið fé Framsóknarflokksins var neikvætt um fjórar milljónir.


Tengdar fréttir

Stoðir: Upplýsingar ekki frá okkur komnar

„Þessar upplýsingar eru ekki frá okkur komnar. Ég hef enga vitneskju um þetta mál og get því hvorki staðfest það né neitað,“ segir Júlíus Þorfinnsson, talsmaður Stoða, um 30 milljóna króna styrk sem FL Group greiddi til Sjálfstæðisflokksins undir lok ársins 2006.

Sigurður Líndal: Siðferðislega ámælisvert að hagnýta sér lög

„Það er siðferðislega ámælisvert að hagnýta sér lög sem maður sjálfur átti þátt í að samþykkja, þó þau hafi ekki formlega tekið gildi," segir Sigurður Líndal, lagaprófessor við frétt Stöðvar 2 þar sem sagt var frá því að FL Group styrkti Sjálfstæðisflokkinn um 30 milljónir þann 29. desember 2006, aðeins þremur dögum áður en lög um hámarksstyrki til stjórnmálaflokka tóku gildi.

Árni M: Ég hafði enga hugmynd

„Ég hafði enga hugmynd. Ég heyrði þetta bara fyrst í fréttunum áðan," sagði fyrrum fjármálaráðherra Sjálfstæðisflokksins, Árni M. Mathíesen, spurður hvort hann hefði heyrt af risaháum styrk FL Group til Sjálfstæðisflokksins í lok desember árið 2006, aðeins þremur dögum áður en lögin tóku gildi um hámarksstyrk fyrirtækja til stjórnmálaflokka.

VG með allt uppi á borði

Drífa Snædal, framkvæmdastýra Vinstri Grænna, segir að flokkurinn hafi ávallt haft bókhald sitt opið. Hægt sé að nálgast endurskoðaða reikninga flokksins á heimasíðu hans aftur til ársins 2003. Reikningar flokksins hafi verið birtir frá því löngu áður en lög um að flokkarnir opni bókhald sitt tóku gildi árið 2007. Upplýst hafi verið um öll framlög umfram hálfa milljón króna.

Björn Bjarnason: Hefði aftekið þessa ráðstöfun fjár með öllu

„Ég vissi þetta ekki og hefði aftekið þessa ráðstöfun fjár með öllu hefði ég haft pata af henni og séð þetta rétt," segir Björn Bjarnason þingmaður Sjálfstæðisflokksins spurður út í þrjátíu milljón króna fjárstyrk FL Group til Sjálfstæðisflokksins. Flokkurinn veitti styrknum viðtöku þann 29. desember árið 2006, aðeins tveimur dögum áður en lög um hámarkstyrki til stjórnmálaflokka tóku gildi.

FL Group styrkti ekki Sjálfstæðisflokkinn ári eftir risastyrk

FL Group styrkti ekki Sjálfstæðisflokkinn árið 2007. Fram kom í fréttum okkar í gærkvöld að félagið lagði þrjátíu milljónir inn á reikning flokksins í lok árs 2006. Frjálsyndi flokkurinn fékk heldur ekki styrk frá FL Group árið 2007.

FL Group styrkti Sjálfstæðisflokk um þrjátíu milljónir

FL Group styrkti Sjálfstæðisflokkinn um þrjátíu milljónir króna aðeins nokkrum dögum áður en lögum var breytt um hámarksframlög til stjórnmálaflokka. Skattrannsóknarstjóri hefur reikning um þennan styrk meðal annars til rannsóknar.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.