Innlent

Á níræðisaldri og þefaði upp heitt vatn fyrir 500 heimili

Valur Grettisson skrifar
Jakob Árnason við borunarpallinn. Mynd/Víkurfréttir/vf.is.
Jakob Árnason við borunarpallinn. Mynd/Víkurfréttir/vf.is.

Landeigandinn á Auðnum á Vatnsleysuströnd, Jakob Árnason, boraði niður á heitt vatn í vikunni en talið er að hann geti hitað upp allt að fimmhundruð heimili með orkunni sem hann fann. Athygli vekur að Jakob er orðinn 83 ára gamall.

„Ég hafði þetta á tilfinningunni, þefaði þetta eiginlega uppi" segir Jakob en ekkert benti til þess í upphafi að heitt vatn væri að finna á jörðinni. Þefnæmi Jakobs sagði þó annað og því boraði hann tilraunaholu. Þá strax varð hann var við vísbendingar sem bentu til þess að þarna mætti finna heitt vatn. Boraði hann því niður á 800 metra dýpi þar sem hann fann fullt af heitu vatni. Magnið getur hitað upp 400-500 heimili.

Á 20 metra dýpi kom borinn niður á kalt vatn og myndi magnið duga til að fullnægja kaldavatnsþörf Grindavíkur samkvæmt fréttavefnum Víkurfréttir sem sögðu fyrst frá heitavatnsfundinum.

Sjálfur lagði Jakob út allan kostnað vegna framkvæmdanna. Í viðtali við blaðamann segist hann hafa eytt tuttugu milljónum í verkefnið.

„Þetta lyftir upp allri ströndinni," segir Jakob sem er ekki einu sinni byrjaður að velta því fyrir sér hvort hann hyggist selja orkuna til fleiri aðila en íbúa á Vatnsleysisströnd.

Þar eru 40 heimili sem nota rafmagn til upphitunar og er það talsvert dýrara en ef húsin yrðu upphituð í gegnum hitaveitu á svæðinu.

Í ljósi þess að Jakob er kominn á níræðisaldur spyr blaðamaður hvort það hafi ekki hvarflað að honum að setjast í helgan stein eins og flestir jafnaldrar hafa gert segir Jakob: „Það hefur verið lagt hart að mér að gera það. En ég stóðst ekki mátið, enda hættir maður að hugsa þegar maður hættir að vinna."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×