Innlent

Fulltrúi innistæðueigenda í Belgíu færði ráðherra súkkulaði

André Meyers á fundi með Björgvini G. Sigurðssyni í dag.
André Meyers á fundi með Björgvini G. Sigurðssyni í dag.

Fulltrúi fimmtíuþúsund innistæðueigenda í Kaupþingi í Belgíu sem fundaði með fjármálaráðherra, viðskiptaráðherra og skilanefnd Kaupþings í dag segist hafa fengið loforð en engin skýr svör. Hann kom færandi hendi með belgískt súkkulaði og vottaði íslensku þjóðinni samúð sína.

André Meyers fundaði með viðskiptaráðherra, fjármálaráðherra og skilanefnd kaupþings í dag. Hann var ánægður með mótttökurnar þó að engin niðurstaða hafi fengist í málið.

,,Engin skýr svör en loforð," segir André Meyers, talsmaður innistæðueigenda í Belgíu.

Nú þegar hafa yfirvöld í Lúxemborg og Belgíu undirritað samninga varðandi sölu á Kaupþingi í Lúxemborg til fjárfestingarsjóðs í Líbýu. Kröfuhafar bankans og skilanefnd Kaupþings hafa ekki undirritað samning varðandi söluna. Meyers segir að þrátt fyrir mikinn velvilja Belga í garð Íslands séu þeir orðnir óþolinmóðir

,,Þeir eru vissulega mjög áhyggufullir og vonast til að fá sparifé sitt aftur."

Meyers gaf ráðherrum Lady Godiva súkkulaði frá Belgíu en nafnið á vísan sína í sögu um að lafðin beraði sig í þágu réttlætis. Hann telur að innistæðueigendur í Kaupþingi í Belgíu og íslenska þjóðin hafi orðið fyrir miklu óréttlæti. ,,Ég votta íslensku þjóðinni samúð mína."










Fleiri fréttir

Sjá meira


×