Erlent

Vill búa í Boeing breiðþotu

Óli Tynes skrifar
Það er hægt að innrétta Boeing breiðþoturnar skemmtilega.
Það er hægt að innrétta Boeing breiðþoturnar skemmtilega.

Norskur flugstjóri hefur sótt um lóð fyrir fjögurra hreyfla Boeing 747 breiðþotu í smábænum Farsund á suðurströnd Noregs. Geir Skailand sem er fjörutíu og fimm ára gamall hyggst innrétta þotuna sem einbýlishús.

Hugmyndina fékk Skailand fyrir fimmtán árum þegar hann byrjaði fyrst að fljúga Beoing 747 meðal annars fyrir Singapore Airlines.

-Ég vann mikið á þessum vélum og sá hversu stórar, sterkar og rúmgóðar þær eru. Þær eru líka mjög vel einangraðar og hlýjar. Það er mikill kostur fyrir heimili.

-Ég hugsaði því með mér að það væri dásamlegt að eiga svona heimili. Ég ákvað að kanna málið þegar vélarnar færu að eldast og hægt að fá þær fyrir gott verð.

Hægt að fá fyrir smáaura

Sá tími er nú kominn. Í dag er hægt að fá skrokka af eldri gerðum af Boeing 747 fyrir smáaura. Skailand gerir hinsvegar þær kröfur að húsið hans verði í flughæfu ástandi.

Hann ætlar nefnilega að búa áfram í Farsund. Því þarf hann að geta flogið vélinni til Lista sem er flugvöllur bæjarins. Þaðan verður henni svo ekið á lóðina sem hann hefur sótt um.

Það er að segja ef bæjaryfirvöld veita leyfi fyrir þessu óvenjulega einbýlishúsi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×