Innlent

Aldraðir komast ekki í þjónustuíbúðir

Fyrir ári slógust iðulega nokkur hundruð manns um kaup á hverri þjónustuíbúð sem í boði var fyrir aldraða, -þá tegund íbúða sem fáir geta keypt í dag. Tregða á fasteignamarkaði veldur því að aldraðir sem vilja komast í þjónustuíbúðir losna ekki við eignir sem þeir þurfa að selja.

Samtök aldraðra hafa um árabil staðið að byggingu húsnæðis fyrir eldri borgara. Í næstu viku verður skóflustunga tekin að nýjasta verkefninu sem er fjölbýlishús við Sléttuveg. Fimmtíu og sjö íbúðir fyrir aldraða verða í húsinu en aðeins þrjátíu og fimm eru seldar. Það hefur aðeins einu sinni áður gerst í fjörtíu ára sögu samtakanna að byrjað hafi verið að byggja hús áður en allar íbúðirnar voru seldar.

Erling Garðar Jónasson, formaður samtakanna, segir að þó margir hafi áhuga á að komast í sérstakar íbúðir fyrir aldraða eigi þeir erfitt með að selja þær eignir sem þeir eigi fyrir vegna tregðu á fasteignamarkaði.

Erling segir ástandið nú mjög ólíkt því sem var á svipuðum tíma í fyrra. Hann tekur sem dæmi að fjögur hundruð manns hafi mætt til að skoða íbúð sem var til sölu í húsi við Sléttuveg þá. Þrjátíu og eitt tilboð barst í íbúðina en þau voru öll staðgreiðslutilboð.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×