Innlent

Ágæt síldveiði hjá skipum HB Granda

Ágæt síldveiði var hjá skipum HB Granda um helgina. Ingunn AK og Lundey NS voru þá saman að veiðum með eitt troll um 80 sjómílur ASA af Hornafirði. Faxi RE kom á miðin í gærkvöldi og tók þá við keflinu af Ingunni sem í framhaldinu tók eitt hol einskipa líkt og í byrjun veiðiferðarinnar.

Fjallað er um málið á heimasíðu HB Granda. Þar segir að skipið sá nú á landleið með afla og vantaði aðeins um 100 tonn upp á að fullfermi hafi verið náð. Í morgun voru Faxi og Lundey komin með um 260 tonna afla eftir nóttina og var þeim afla dælt í tanka Lundeyjar.

Vilhjálmur Vilhjálmsson, deildarstjóri uppsjávarsviðs HB Granda, er ánægður með gang mála á síldveiðunum en að hans sögn hafa skipin komið þrisvar með afla til Vopnafjarðar frá því í byrjun síðustu viku. Ingunn landaði þar 1.725 tonnum, Lundey 1.250 tonnum og Faxi 1.170 tonnum. Landaður afli á vertíðinni er nú kominn í um 11.500 tonn en síldveiðarnar hófust í lok maí sl.

,,Það hefur í öllum tilvikum verið reynt að vinna sem mest af aflanum til manneldis en vandinn er sá að síldin hefur verið í æti síðustu vikurnar og fitnar mjög hratt og fyrir vikið hefur los í holdinu aukist. Það gerir síldina erfiðari til vinnslu. Að sama skapi hefur lýsisnýtingin í fiskmjölsverksmiðjunni aukist til muna," segir Vilhjálmur en að hans sögn hefur einnig verið reynt að vinna makríl, sem veiðst hefur sem aukaafli með síldinni, í fiskiðjuverinu á Vopnafirði en þær tilraunir hafi ekki skilað nægilega góðum árangri.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×