Lífið

Úr Smáfuglum yfir í Rómeó

Atli Óskar Fjalarsson leikur sjálfan Rómeó í leikritinu Rómeó og Júlía sem verður frumsýnt í kvöld.
fréttablaðið/valli
Atli Óskar Fjalarsson leikur sjálfan Rómeó í leikritinu Rómeó og Júlía sem verður frumsýnt í kvöld. fréttablaðið/valli

„Ég hlakka rosalega til. Þetta verður örugglega alveg æðislegt,“ segir Atli Óskar Fjalarsson, sem leikur Rómeó í uppfærslu leikfélags Borgarholtsskóla á Rómeó og Júlíu eftir William Shakespeare.

Atli Óskar, sem lék í hinni margverðlaunuðu stuttmynd Smáfuglar eftir Rúnar Rúnarsson, hefur æft hlutverkið stíft síðustu sex vikur. „Þetta er bráðfyndin sýning þótt ég segi sjálfur frá. Það er mjög mikið af gríni en samt mikið af drama inn á milli eins og einkennir söguna. Við gerðum okkar eigin heim í kringum þetta þar sem allt getur gerst,“ segir hann. „Það er draumkenndur glamúr yfir sýningunni.“

Söguþráðurinn býður upp á sverðabardaga og fimleika auk þess sem fjögurra manna hljómsveit skólans leikur frumsamda tónlist. „Við fengum mann sem er búinn að starfa mikið við áhættuleik til að hjálpa okkur með skylmingaatriðin,“ segir Atli Óskar, sem hefur alveg sloppið við meiðsli. „Við skipulögðum atriðin mjög vel áður en við fórum að gera þau hratt.“

Atli, sem er sextán ára, hefur lítið leikið síðan hann steig fram á sjónarsviðið í Smáfuglum. Hann segir þá reynslu hafa verið frábæra. „Það var æðislegt að fá að taka þátt í svona mynd, sérstaklega vegna þess að hún fór svona langt og var margverðlaunuð.“

Leikstjóri Rómeó og Júlíu er Ágústa Skúladóttir og með hlutverk Júlíu fer Þuríður Davíðsdóttir. Verkið verður frumsýnt klukkan 20 í kvöld í Bæjarleikhúsi Mosfellsbæjar. - fb






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.