Erlent

Calderon skiptir um saksóknara

Atli Steinn Guðmundsson skrifar
Eduardo Medina Mora, fráfarandi saksóknari.
Eduardo Medina Mora, fráfarandi saksóknari.

Forseti Mexíkó hefur leyst saksóknara, sem tók þátt í að stjórna átakinu gegn eiturlyfjahringjum, frá störfum vegna lítils árangurs við að leysa upp slíka hringi.

Eduardo Medina Mora saksóknari hefur að mati Felipe Calderon, forseta Mexíkó, ekki haft erindi sem erfiði við að koma háskalegustu mönnum landsins bak við lás og slá í þeirri vargöld sem orðið hefur yfir 13.000 manns að bana á síðustu þremur árum.

Ekki er nema von að Calderon vilji að hlutirnir gangi betur þar sem hann hefur sett forsetaembætti sitt að veði í baráttunni við eiturlyfjabarónana og heitið því að knýja til kyrrðar það brim sem ógnað hefur lífi þúsunda íbúa landsins. Þá hefur Calderon hlotið myndarlega styrki frá Bandaríkjunum til að standa undir kostnaði við vopn og þjálfun sérsveita.

Um 20 manns á dag liggja í valnum í eiturlyfjatengdum átökum í Mexíkó og er skemmst að minnast þess þegar grímuklæddir byssumenn myrtu 17 manns á meðferðarstofnun í síðustu viku. Verst er ástandið í borginni Ciudad Juarez sem er á landamærunum og skammt frá El Paso í Texas en hún er eins konar hlið fyrir kókaín á leið til Bandaríkjanna. Nýr saksóknari er lítt þekktur fyrrum yfirmaður úr lögreglunni og nú er bara að sjá hvernig hreinsunarstarfið gengur hjá honum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×