Innlent

Ríkisstjórnin vill eitthvað annað en álver á Bakka

Tveimur vikum áður en viljayfirlýsing um álver við Húsavík rennur út kveðst ríkisstjórnin ætla að horfa til fleiri kosta. Sveitarstjórn Norðurþings bókaði hins vegar í gærkvöldi að aðrir raunhæfir kostir hefðu ekki litið dagsins ljós og vill framlengja verkefnið með Alcoa.

Áform um álver við Húsavík gætu heyrt sögunni til um næstu mánaðamót, verði viljayfirlýsing um verkefnið, sem þá rennur út, ekki framlengd. Alcoa leitar allra leiða til að fá framlengingu, að sögn talsmanns fyrirtækisins, Ernu Indriðadóttir, í dag. Bakkaálver hefur víðtækan stuðning forystumanna Þingeyinga, ef marka má bókun sveitarstjórnar Norðurþings í gærkvöldi, þar sem átta af níu fulltrúum lýstu yfir vilja til að undirbúningi verði haldið áfram, enda segja þeir að stóriðja á Bakka muni hafa mikil og góð samfélagsáhrif í Þingeyjarsýslum og snúa viðvarandi fólksfækkun til betri vegar. Ríkisstjórnin er ekki jafn áhugasöm og vill að orkan í héraðinu fari í allt annað en álver.

Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra sagði við fréttamenn að loknum ríkisstjórnarfundi í Ráðherrabústaðnum í gær að farið verði í fleiri kosti og þeir bornir saman hvað varðar orkunýtingu, en ekki bara horft til álvers á Bakka heldur horft til fleiri kosta.

Sveitarstjórnarfulltrúar Norðurþings bókuðu hins vegar í gærkvöldi að þeir hafi ávallt verið opnir fyrir því að aðrar hugmyndir séu skoðaðar. Staðreyndin sé hinsvegar sú að, þrátt fyrir miklar umræður og ítarlegar athuganir, hafi aðrir raunhæfir kostir ekki litið dagsins ljós.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×