Innlent

Evrópulán Orkuveitunnar ekki tengt Icesave

Kristján Már Unnarsson skrifar
Guðlaugur Sverrisson, stjórnarformaður Orkuveitu Reykjavíkur, hafnar því að það sé Icesave-samningunum að þakka að Orkuveitan fái nú, eftir ársbið, afgreitt þrjátíu milljarða króna lán frá Evrópska fjárfestingabankanum.

Lánið frá Evrópska fjárfestingarbankanum var fryst fyrir ári þegar íslenska fjármálakerfið hrundi. Síðastliðinn föstudag fékk Orkuveitan loks grænt ljós frá bankanum. Athygli vekur að það gerist tíu dögum eftir að viðauki við Icesave-samkomulagið var undirritaður við Breta og Hollendinga, sem leiddi til þess að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn afgreiddi efnahagsáætlun Íslands í síðustu viku.

Stjórnarformaður Orkuveitunnar neitar því að lán Evrópska fjárfestingarbankans hafi verið háð lausn Icesave-deilunnar. Guðlaugur segir að kenningasmiðir landsins geti eflaust lagt í það að tengja þetta saman. Það sé ekki þannig. Orkuveitan sé búin að vinna í þessu í rúmt ár og náið saman með áhættudeild bankans að meta ástandið. Þetta hafi bara tekið þennan tíma, óháð öðrum lánveitingum. Eingöngu hafi verið horft til Orkuveitunnar og til ytri aðstæðna. Þeir hjá Evrópska fjárfestingabankanum hafi ekki tengt þetta við Icesave-samningana. Þeir hafi ekki skipt neinu máli, segir Guðlaugur.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×