Innlent

Átök koma í veg fyrir undirritun stöðugleikasáttmála

Deilur um hvernig taka skuli á ríkisfjármálunum gera það að verkum að ekki er hægt að ganga frá stöðugleikasáttmála. Formaður Kennarasambands Íslands segir mikla óvissu um framhaldið en að hlutirnir skýrist væntanlega betur í dag.

Stíf fundarhöld hafa verið síðustu daga og hart unnið að gerð stöðugleikasáttmála, en gerð kjarasamninga hefur verið erfið við núverandi aðstæður. Aðilar vinnumarkaðarins og launþega voru bjartsýnir í byrjun vikunnar um að niðurstaða væri í sjónmáli en nú virðist sem óvissan sé aftur ríkjandi. Stærsta ágreiningsmálið er ríkisfjármálin, en deilt er um með hvaða hætti eigi að brúa gríðarstórt gat á ríkissjóði.

Samtök atvinnulífsins og Alþýðusamband Íslands hafa lagt áherslu á að eftir 2010 verði dregið úr vægi skatta en aukin áhersla verði fremur lögð á niðurskurð í opinberum rekstri. En þessu er opinberi vængur verkalýðshreyfingarinnar ekki sammála. Þar eru menn hræddir um að blóðugur niðurskurður þýði samdrátt í velferðarþjónustunni með tilheyrandi uppsögnum opinberra starfsmanna og skerðingu á þjónustu.

Fréttablaðið greindi frá því í morgun að opinberir starfsmenn vilji fara hægar í sakirnar þegar kemur að niðurskurði en aðilar vinnumarkaðarins og alþýðusambandið.

Önnur ágreiningsefni eru meðal annars vextir og gjaldeyrishöft. Eins og fréttablaðið greindi frá í morgun hafa ASÍ og Samtök atvinnulífsins lagt áherslu á afnám gjaldeyrishafta á meðan aðrir telja að hægar skuli farið í afnám hafta.

Fundarhöld héldu áfram í Karphúsinu í morgun en þar hafa aðilar vinnumarkaðar annars vegar og launþega hins vegar fundað í sitt hvoru lagi.

Samkvæmt heimildum fréttastofu hefur lítið breyst síðan í gærkvöldi og standa ríkisfjármálin enn í vegi fyrir sátt.

Eiríkur Jónsson, formaður Kennarasambands Íslands, sagði í samtali við fréttastofu í morgun að mikil óvissa væri um framhaldið en að það skýrist líklega í dag í hvora áttina þetta fari.

Ekki náðist í Vilhjálm Egilsson, framkvæmdastjóra Samtaka atvinnulífsins, né Gylfa Arnbjörnsson, forseta ASÍ í morgun, þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir.






Tengdar fréttir

Verkalýðshreyfingin deilir um skatta og niðurskurð

Nokkur titringur er kominn upp innan verkalýðshreyfingarinnar í viðræðum um stöðugleikasáttmála. Deila menn þar um leiðir til að taka á þeim mikla fjárlagahalla sem fyrirséður er.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×