Innlent

Verkalýðshreyfingin deilir um skatta og niðurskurð

Nokkur titringur er kominn upp innan verkalýðshreyfingarinnar í viðræðum um stöðugleikasáttmála. Deila menn þar um leiðir til að taka á þeim mikla fjárlagahalla sem fyrirséður er.

Alþýðusamband Íslands og Samtök atvinnulífsins hafa lagt á það áherslu að eftir 2010 verði dregið úr vægi skatta í því að brúa bilið í fjárlögum. Þess í stað verði aukin áhersla á niðurskurð. Vaxandi titringur er innan hluta verkalýðshreyfingarinnar, sérstaklega á opinbera vængnum, um að það þýði stórfelldan samdrátt í velferðarþjónustunni með tilheyrandi uppsögnum og skerðingu á þjónustu.

Fréttablaðið hefur heimildir fyrir því að innan ríkisstjórnar telji sumir að kröfur ASÍ og SA um niðurskurð gangi lengra en kröfur Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Opinberir starfsmenn vilja hins vegar fara hægar í sakirnar og er það mun nær hugmyndum ríkisstjórnarinnar, samkvæmt heimildum Fréttablaðsins.

Nokkrir innan stjórnarmeirihlutans hafa gagnrýnt Alþjóðagjaldeyrissjóðinn fyrir að fara of geyst í sakirnar í kröfum um niðurskurð. Meðal þeirra er Ögmundur Jónasson heilbrigðisráðherra.

Fulltrúar vinnumarkaðar funduðu í gær með ráðherrum í Stjórnar­ráðinu og var jafnvel búist við að skrifað yrði undir á þeim fundi. Ríkisfjármálin stóðu hins vegar út af borðinu að honum loknum, sem og málefni starfs­endurhæfingarsjóðs sem verið er að kippa í liðinn.

Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins hafa ASÍ og SA lagt áherslu á afnám gjaldeyrishafta. Það stangast á við áherslur ýmissa annarra um að lykilatriði sé að ná vöxtum niður, en varlegar skuli farið í höftin.

Meðal þess sem rætt hefur verið er hvort þeir aðilar sem hafa verið hvað mest áberandi í efnahagsráðgjöf síðustu ára, svo sem Viðskiptaráð og Kauphöllin, eigi að eiga ríkan þátt í enduruppbyggingu samfélagsins og þá hve mikinn.- kóp




Fleiri fréttir

Sjá meira


×