Innlent

Dæmi um að menn fari yfir 800 kg í strandveiðunum

Fiskistofa hefur séð ástæðu til þess að árétta það að þeim sem stunda strandveiðar er eingöngu heimilt að draga 800 kg af óslægðum kvótabundnum afla í hverri veiðiferð. Nokkur brögð hafa verið að því að menn séu að koma að landi með umframafla sem nemur tugum kílóa.

Eyþór Björnsson forstöðumaður veiðieftirlitsins hjá Fiskistofu segir að ástæða sé til að hvetja menn til að halda sig við fyrrgreinda heimild og jafnvel aðeins innan hennar. Allt sem kemur að landi umfram 800 kg hjá hverjum bát er tekið af heildarheimildinni. „Menn sem gera þetta eru því að taka frá öðrum sem stunda strandveiðarnar þegar upp er staðið," segir Eyþór.

Fiskistofa vill einnig vekja athygli á að veiðar umfram leyfilegt magn geta leitt til sviptingar leyfis til strandveiða og aðilar sem gerast brotlegir á þann hátt geta einnig átt von á að mál þeirra verði kærð til lögreglu. Gjald vegna ólögmæts sjávarafla verður lagt á það magn sem veitt er umfram 800 kg af óslægðum kvótabundnum tegundum á dag.

Gjald það sem hér um ræðir fer eftir verðinu á mörkuðum hverju sinni. Þannig er gjaldið fyrir kíló af þorski rúmlega 200 kr. í augnablikinu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×