Lífið

Tvær gítarhetjur starfa saman

Gítarleikararnir Eyjólfur Jóhannsson og Hrafnkell Pálmarsson vinna saman í Kringlunni.
Gítarleikararnir Eyjólfur Jóhannsson og Hrafnkell Pálmarsson vinna saman í Kringlunni. Mynd/Rósa

Gítarleikarar úr tveimur af þekktustu hljómsveitum landsins, SSSól og Í svörtum fötum, starfa saman í versluninni Sense Center í Kringlunni. Um er að ræða félagana Eyjólf Jóhannsson og Hrafnkel Pálmarsson sem hafa starfað þar saman í tvö ár.

Verslunin býður upp á allt sem viðkemur hljóð- og myndlausnum og eru þeir Eyjólfur og Hrafnkell því á heimavelli þar. „Þarna sameinum við kannski þessi áhugamál. Ég hef alltaf haft mikinn áhuga á tækni og tækjum. Við erum báðir gítarleikarar og það fylgir okkur alltaf aragrúi af tólum og tækjum, þannig að þetta er alveg nátengt," segir Hrafnkell, meðlimur Í svörtum fötum.

Kollegi hans Eyjólfur á langan feril að baki með SSSól og segir Hrafnkell gaman að vinna með honum, enda sé hann gamalt átrúnaðargoð úr tónlistarbransanum. „Mér hefur alltaf þótt mikið til Eyjó koma sem poppgítarleikara."

Í vinnunni skiptast þeir stundum á sögum úr bransanum, enda af nægu að taka. Engin áform eru samt uppi um að þeir semji eitthvað saman. „Við látum duga í starfsmannapartíum að kyrja einhverja vel valda slagara. Það er nauðsynlegt og það veitir öllum gleði að syngja saman."

Báðir ætla þeir að spila með hljómsveitum sínum í sumar og hver veit nema þeir leiði saman hesta sína á einhverju ballinu og rifji upp takta sína úr starfsmannapartíunum, áheyrendum til yndisauka.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.