Innlent

BHM: Stjórnvöld brjóta líklegast lög

Magnús Már Guðmundsson skrifar
Guðlaug Kristjánsdóttir, formaður Bandalags háskólamanna.
Guðlaug Kristjánsdóttir, formaður Bandalags háskólamanna. Mynd/Stefán Karlsson
Bandalag háskólamanna (BHM) telur að ákvarðanir stjórnvalda um að skerða kjör félagsmanna aðildarfélaga bandalagsins, bæði þær sem til framkvæmdar eru komnar og þær sem fyrirhugaðar eru, grafa undan forsendum kjarasamninga stéttarfélaga við opinbera aðila og skapa aðstæður á vinnumarkaði sem erfitt er að sjá hvernig unnt verður að komast frá með friði. BHM telur ástæðu til að efast um að aðgerðir stjórnvalda séu í samræmi við gildandi réttarreglur og er reiðubúið að láta reyna á lögmæti þeirra ef á þarf að halda, að fram kemur í tilkynningu.

BHM mótmælir því harðlega að stjórnvöld geri kröfur til aðgerða hjá stofnunum og fyrirtækjum sem í einstökum tilvikum er ekki unnt að mæta án þess að brjóta annað hvort kjarasamninga eða lög, að mati bandalagsins.

„BHM lýsir áhyggjum af vinnubrögðum sem vart hefur orðið við meðal forstöðumanna stofnana og fyrirtækja ríkisins, þar sem lagt er að starfsmönnum að samþykkja kjaraskerðingar og falla frá lögbundnum og samningsbundnum réttindum sem verið hafa í gildi á íslenskum vinnumarkaði um áratuga skeið undir því yfirskini að slíkt forði þyngri aðgerðum. Það er óviðunandi að ástand á vinnumarkaði sé misnotað til að þvinga starfsmenn til að afsala sér samningsbundnum rétti," segir í tilkynningunni.

Þar kemur fram að stjórn BHM hefur sent forstöðumönnum stofnana og fyrirtækja ríkisins bréf þessa efnis og hvetur til þess að allar áætlanir um kjaraskerðandi aðgerðir verði endurskoðaðar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×