Innlent

Skólamáltíðir ódýrastar í Reykjanesbæ

Myndin er tekin úr grunnskóla á höfuðborgarsvæðinu.
Myndin er tekin úr grunnskóla á höfuðborgarsvæðinu.

Verð á skólamáltíðum grunnskóla er lægst í Reykjanesbæ, eða um 190 krónur, ef miðað er við mánaðar- eða annaráskrift. Ef miðað er við yngstu bekki grunnskóla er verðið lægst í Skagafirði, eða 177 krónur. Þetta kemur fram í frétt á vef Neytendasamtakanna.

Neytendasamtökin könnuðu verð á skólamáltíðum grunnskóla í 18 sveitarfélögum víðs vegar um landið. Öll sveitarfélögin bjóða upp á heitan hádegismat en misjafnt er hvort maturinn er eldaður í skólunum eða hitaður upp. Verð er yfirleitt hærra á stökum máltíðum þegar boðið er upp á að kaupa stakar máltíðir.

„Algengast er að börn séu í mánaðar-eða annaráskrift og er þá lægsta verð fyrir máltíð 190 krónur í Reykjanesbæ. Ef miðað er við 1.-3. bekk er lægsta verðið í Skagafirði eða 177 krónur en þar greiða yngstu börnin lægra verð en þau eldri. Hæst er verðið í Garðabæ 392 krónur og miðast verð við fasta áskrift allt skólaárið," segir í frétt Neytendasamtakanna.

Það vakti sérstaka athygli að aðeins tvö sveitarfélög innheimta lægra verð fyrir yngstu börnin, sem eru 1.-3. bekk, en það er á Hornarfirði og í Skagafirði. Segja Neytendasamtökin að ætla megi að yngstu börnin borði mun minna en unglingarnir.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×