Innlent

Fleiri karlar en konur á Þjóðfundi

Af þeim 1231 fundargesti á Þjóðfundinum í Laugardalshöll í gær voru konur í minnihluta, eða 47 prósent, samkvæmt heimasíðu Þjóðfundarins. Á móti voru karlmenn 53 prósent af fundargestum.

Þá segir einnig í tölfræði sem finna má á heimasíðu fundarins að Þjóðfundurinn endurspegli síst sjónarmið norðausturkjördæmis eða 50,7 prósent en þaðan komu 75 þátttakendur. Þjóðfundurinn endurspeglar hinsvegar best sjónarmið þeirra sem búa í Reykjavík en þar er hlutfallið 135,1 prósent og sóttu 618 reykvíkingar fundinn.

Flestir sem sóttu fundinn voru á aldrinum 45 til 54 ára. Fæstir úr hópnum 17-24 ára sótti hinsvegar fundinn.

Hvert svæði skilaði af sér 18 setningum en á fundinum voru 162 borð. Því má finna ógrynni af setningum á vefnum um vilja þeirra sem sóttu fundinn.

„Leikurinn var gerður til að heyra rödd þjóðarinnar og við teljum að útkoman endurspegli hana," sagði Lárus Ýmir Óskarsson, einn forsvarsmanna Þjóðfundarins, í tilkynningu í gær.

Þess má geta að um 300 manns voru handvalin inn á fundinn. Þar mátti bæði finna þingmenn og verkalýðsforkólfa.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×