Innlent

Bankaleynd vikið til hliðar

Löggjafinn ákvað á föstudag að setja á stofn sérstaka nefnd til að hafa eftirlit með framkvæmd laga um skuldaaðlögun.
Löggjafinn ákvað á föstudag að setja á stofn sérstaka nefnd til að hafa eftirlit með framkvæmd laga um skuldaaðlögun.

Skipa á sérstaka nefnd til að hafa eftirlit með framkvæmd sértækrar skuldaaðlögunar sem ákveðin var með lögum á föstudag. Í þeim er annars vegar sagt til um hvernig laga eigi skuldir að greiðslugetu og eignastöðu fólks og hins vegar er fjallað um eftirgjöf skulda eða aðrar ívilnanir banka gagnvart fyrirtækjum.

Efnahags- og viðskiptaráðherra á að skipa nefndina og skal hún vera fagleg, eins og segir í lögunum. Í henni eiga að sitja þrír menn: hagfræðingur, endurskoðandi og einstaklingur sem uppfyllir skilyrði um embættisgengi héraðsdómara. Nefndin hefur starfsmann á sínum snærum.

Störf hennar felast í eftirliti með að bankarnir fari að samræmdum reglum og að sanngirni og jafnræðis sé gætt milli skuldara. Getur hún kallað eftir gögnum um ákvarðanir og haft aðgang að fundum. Í því augnamiði er lögum um þagnarskyldu starfsfólks fjármálafyrirtækja vikið til hliðar. Ber því að veita nefndinni þau gögn og þær upplýsingar sem hún óskar eftir. Nefndin sjálf er á hinn bóginn bundin þagnarskyldu um gögn og upplýsingar sem hún kann að fá vitneskju um við starf sitt.

Nefndin skal, eftir atvikum, gera ráðherra og Fjármálaeftirlitinu viðvart telji hún farið á svig við lög og reglur.- bþs




Fleiri fréttir

Sjá meira


×