Enski boltinn

Crouch finnur til með Robbie Keane

NordicPhotos/GettyImages

Peter Crouch, framherji Portsmouth og fyrrum leikmaður Liverpool, segist finna til með írska landsliðsmanninum Robbie Keane eftir misheppnaða dvöl hans í Bítlaborginni.

Keane náði sér aldrei á strik sem leikmaður Liverpool og var fyrir skömmu sendur aftur til Tottenham, þaðan sem hann var keyptur fyrir metfé eftir aðeins 16 leiki fyrir þá rauðu.

Crouch finnur til með Keane eftir að hafa sjálfur upplifað að vera eins og jójó inn og út úr liði Liverpool. Hann segist aldrei hafa botnað í því hvað Rafa Benitez var að hugsa þegar hann valdi lið sitt.

"Það er vissulega margt líkt með því sem gerðist hjá mér og Robbie Keane hjá Liverpool. Við vitum öll að Keane er frábær leikmaður en hann fékk ekki tækifæri til að sanna sig hjá Liverpool. Svona er þetta með Rafa. Þegar ég spilaði þarna, vissi ég aldrei af hverju ég var ekki að spila," sagði Crouch og útskýrði mál sitt frekar.

"Ég hélt um tíma að ég væri bara alls ekki inni í myndinni hjá honum, en þá hafði hann mig í byrjunarliðinu þrjá leiki í röð. Það kom að því að ég hætti alveg að spá í hvenær ég myndi spila og hvenær ekki og það var súrast að fá ekki að spila úrslitaleikinn í Meistaradeildinni þar sem hann byrjaði með Kuyt einan frammi," sagði Crouch í samtali við Sun.

Hann segir þó ekki hægt að gagnrýna Benitez harðlega á meðan hann nær árangri með Liverpool.

"Stuðningsmönnum Liverpool er alveg sama hvernig maður Rafa er á meðan liðið er að vinna. Það er ekki hægt að segja að hann hafi ekki náð fínum árangri, en svona lagað getur samt verið svekkjandi," sagði Crouch.

Hann viðurkennir að hann væri alveg til í að skora á móti Liverpool seinna í dag.

"Rafa sagði mér að hann hefði mikla trú á mér þegar ég fór til Portsmouth og því hef ég ekkert sérstakt að sanna í þessum leik. Það er hinsvegar alltaf sérstakt að spila á móti sínu gamla félagi og því væri gaman að skora," sagði hinn leggjalangi framherji.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×