Innlent

Tillögu Ólafs varðandi Eykt vísað frá

Ólafur F. Magnússon borgarfulltrúi lagði í dag fram tillögu þess efnis í borgarráði að skorað yrði á byggingarfélagið Eykt að upplýsa um framlög sín og styrki til stjórnmálasamtaka sem buðu fram í síðustu borgarstjórnarkosningum.

Ólafur vildi jafnframt að upplýst yrði hvaða frambjóðendur í prófkjörum fyrir síðustu borgarstjórnarkosningar fengu styrki frá félaginu og hvort aðrir styrkir hafi runnið til frambjóðenda og kjörinna fulltrúa í borgarstjórn á þessu kjörtímabili. Tillögunni var vísað frá með atkvæðum borgarráðsmanna Framsóknarflokks, Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar. Fulltrúi Vinstri grænna í borgaráði sat hins vegar hjá.

Tillagan var fram komin vegna frétta þess efnis að Eykt hafi verið fengið til að annast uppsteypu brunahúsanna svokölluðu í Austurstræti án þess að hafa átt lægsta tilboð í verkið. Framkvæmdastjóri verktakafyrirtækisins Fonsa sakaði framsóknarmenn nýverið í fréttum Stöðvar 2 um pólitíska spillingu og sóðaskap í tengslum við útboðið og útilokaði ekki að málið yrði kært, en Fonsi átti lægsta tilboðið í verkið. Eykt átti næst lægsta tilboðið og fékk verkið þar sem tilboð Fonsa þótti ekki uppfylla reglur útboðsins.

Að sögn Ólafs voru rök meirihlutans fyrir frávísun þau að verið væri að vinna í málum af þessu tagi í borgarkerfinu. Ólafur segir þau rök með öllu ófullnægjandi og að þrátt fyrir frávísun muni hann ekkert gefa eftir með það að fá allt upp á borðið varðandi tengs Eyktar við Reykjavíkurborg.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×