Innlent

Bjössi í World Class: Vorum ekki í kennitöluflakki

Reksturinn stendur styrkum fótum, við vorum ekki í kennitöluflakki og ég er ekki á leiðinni í gjaldþrot, segir eigandi World Class á Íslandi. Hann hyggur á málshöfðun á hendur Straumi.

Árið 2006 lögðu Straumur-Burðarás, Björn Leifsson, eigandi World Class á Íslandi og Guðmundur Ágúst Pétursson, viðskiptafélagi hans, um 2,3 milljarða íslenskra króna - á þáverandi gengi - í kaup á danska líkamsræktarfyrirtækinu Equinox. Danmerkurævintýrið beið skipbrot, samskiptin súrnuðu og fyrirtækið ytra var að lokum selt fyrir smáaura. Björn segir allar forsendur hafa breyst eftir bankahrunið.

„Jú, eftir á að hyggja var þetta kolröng ákvörðun. Auk þess sem verðmatið úti og ráðgjöf Straums var líka kolvitlaust. Fyrirtækið var keypt alltof dýrt og náði aldrei flugi þannig að ég tel að Straumur eigi miklu meiri sök í þessu máli en nokkurn tíma við," segir Björn.

Málið er allt hið flóknasta, en stendur þannig í dag að deilt er um hundruð milljóna skuld, sem kröfuhafar í Straumi ætla að sækja fast að innheimta. Björn gagnrýnir meðferðina sem málið hefur fengið og segist fyrst og fremst vilja tryggja fyrirtæki sitt og hagsmuni viðskiptavina sinna.

„Við erum að skoða málshöfðun gegn Straumi vegna þess að vinnubrögðin sem þeir hafa viðhaft í þessu máli bæði sem söluaðili, hluthafi, stjórnandi og ráðgjafi eru ekki eins og vinnubrögð sem eiga að tíðkast á eyrinni, það er bara þannig," segir Björn.

Björn gagnrýnir Kaupþing harkalega, en bankinn seldi Straumi kröfu, sem hann var persónulega í ábyrgð fyrir. Það segir hann að geti orðið honum dýrkeypt.

„Ef Straumur fer alla leið getur vel verið að þeir nái að koma mér í gjaldþrot persónulega. En það hefur ekkert með World Class að gera, það gengur mjög vel og mun gera það áfram," segir Björn að lokum.


Tengdar fréttir

Straumur stefnir World Class vegna kennitöluflakks

Straumur mun leggja fram stefnu gegn líkamsræktarstöðinni World Class í dag eða í fyrramálið í Héraðsdómi Reykjavíkur vegna kennitöluflakks á vegum World Class. Með því hafi skuld við Straum upp á einn milljarða kr. verið skilin eftir í gamla félaginu en allar eignir World Class settar yfir í nýtt félag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×