Erlent

Samlokukynslóð í sjálfheldu

Atli Steinn Guðmundsson skrifar
Það þarf víst eitthvað aðeins meira en göngugrind til að styðja við samlokukynslóðina sem er að sligast undan börnum sínum og foreldrum.
Það þarf víst eitthvað aðeins meira en göngugrind til að styðja við samlokukynslóðina sem er að sligast undan börnum sínum og foreldrum. MYND/Telegraph

Milljónir breskra fjölskyldna hinnar svokölluðu samlokukynslóðar eru að kikna undan álaginu af að þurfa bæði að sinna foreldrum sínum og afkvæmum.

„Höfum engi þrek, veldr æska þér en elli mér," kvað hinn aldurhnigni Bersi í Kormáks sögu Ögmundarsonar. Æska og elli eru andstæður sem fjöldi fjölskyldna hinnar svokölluðu samlokukynslóðar í Bretlandi fær nú að finna fyrir en þar er um að ræða fólkið sem hefur bæði fyrir börnum sínum og foreldrum að sjá.

Samkvæmt könnun samtakanna Charity 4 Children eru 28 prósent kynslóðarinnar í þessum vandræðum. Blessuð börnin þurfa umsjá og umhyggju en ekki er nóg með það heldur þarf að snúast í kringum gamla settið líka, skreppa í búðir fyrir það, flytja það milli lækna og jafnvel hlaupa undir bagga með því fjárhagslega.

Þetta telja sumir miklu meira en fullt starf og eru nánast að kikna undan þessu álagi kynslóðanna. Þá segist helmingur þeirra, sem könnunin náði til, telja lífið mun erfiðara núna en fyrir tveimur áratugum og um þriðjungur hittir ættingja innan stórfjölskyldunnar ekki nema einu sinni á ári eða jafnvel sjaldnar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×