Tvö Íslendingalið spila í kvöld sinn fyrsta leik í sænsku kvennadeildinni á þessu tímabili. Liðin, Djurgården og Kristianstad, eru bæði á útivelli á móti nýliðum, Djurgården heimsækir Stattena en Kristianstad á leik á móti Piteå.
Það verða fjórir Íslendingar í sviðsljósinu hjá Kristianstad. Elísabet Gunnarsdóttir stjórnar þarna sínum fyrsta leik sem þjálfari í sænsku úrvalsdeildinni og með liðinu spila Íslendingarnir Hólmfríður Magnúsdóttir, Erla Steina Arnardóttir og Guðný Björk Óðinsdóttir.
Elísabet er þegar búin tilkynna byrjunarliðið og allar íslensku stelpurnar byrja. Erla verður í vörninni en þær Hólmfríður og Guðný munu spila á miðjunni.
Hjá Djurgården spila markvörðurinn Guðbjörg Gunnarsdóttir og varnarmaðurinn Guðrún Sóley Gunnarsdóttir.
Guðbjörg er í hópnum í kvöld en Guðrún Sóley er nýkomin út og verður ekki með í þessum leik. Þær eru báðar komnar með föst númer, Guðbjörg spilar númer 1 en Guðrún Sóley verður í treyju númer 4.
Það er mun lengra ferðalag sem bíður stelpnanna í Kristianstad því Piteå er 41 þúsund manna bær lengst norður í Svíþjóð. Það gæti líka orðið kalt í kvöld enda er spáin að hitastigið verði rétt fyrir ofan frostmark. Satterna liðið er frá Helsingborg í suður Svíþjóð.