Innlent

Endurreisn efnahagslífsins hafin

Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra telur að stjórnvöld séu komin með miklu víðtækara hlutverk í efnahagslífinu en staðið hafði til og miklu stærra hlutverk en ríkissjóður ætti að hafa. Þetta sagði ráðherrann á Viðskiptaþingi Viðskiptaráðs Íslands sem haldið var um helgina. Hún gerði líka ábyrgð á bankahruninu að viðfangsefni.

,,Ég trúi því að við sem erum stödd hér í dag gerum okkur fulla grein fyrir því að þeir sem teljast til viðskiptalífsins bera ríka ábyrgð á því hvernig komið er. Ef til vill ríkari ábyrgð en nokkur annar einstakur aðili hér á landi, enda þótt nú verði allir að líta í eigin barm og horfast í augu við hvað betur hefði mátt fara. Vissulega bera stjórnvöld hér líka ábyrgð. Þau hefðu átt að grípa inní, setja reglur og tryggja að ekki færi allt í óefni. Vissulega brugðust eftirlitsstofnanir og bera mikla ábyrgð á því að svo fór sem fór. Ekkert af þessu réttlætir hins vegar þau vinnubrögð og þær aðferðir sem beitt var af hálfu athafnamanna," sagði Jóhanna.

Forsætisráðherra sagðist telja að endurreisn íslensks efnahagslífs væri hafin og sagðist sannfærð um að sveigjanleiki í atvinnulífi muni koma þjóðinni fyrr í gegnum efnahagslægðina en öðrum þeim þjóðum sem glíma við svipaðan vanda. Hún fór jafnframt yfir þær ráðstafanir sem ríkisstjórnin hefur gert í efnahagsmálunum og til endurrreisnar bankakerfisins og lýsti því að mikilvægar áfangar á því sviðinu væru innan seilingar. Nefndi hún þar sérstaklega að samningum við erlenda lánadrottna gömlu bankanna yrði lokið í maí og stofnun sérstaks eignarhaldsfélags á vegum ríkisins sem fara mun með hlut ríkisins í bönkunum þremur og hlut ríkisins í eignaumsýslufélagi sem tekur yfir illa stödd en mikilvæg fyrirtæki frá bönkunum. Stofnun félagsins og starfsemi verður liður í að tryggja samræmd og fagleg vinnubrögð annars vegar en hins vegar eðlilega fjarlægð stjórnmálamanna og framkvæmdavalds frá rekstri bankanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×