Innlent

Davíð Oddsson: Gætum stefnt í eilífðar fátækt

„[...] Þetta er ótrúlegt klúður sem stjórnvöld hafa komið landinu í og við gætum stefnt hér hraðbyr í einhverja eilífðar fátækt," segir Davíð Oddsson fyrrum forsætisráðherra til þrettán ára og nú síðast Seðlabankastjóri í viðtali við Agnesi Bragadóttur í sunnudagsblaði Morgunblaðsins sem kom út í kvöld.

Hann segir í viðtalinu að yfirlýsingar Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur, þá utanríkisráðherra, svo síðar Steingríms J. Sigfússonar fjármálaráðherra og Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra, hafa skaðað málstað Íslendinga gríðarlega í Icesave deilunni. Það hafi þau gert með því að lofa að standa skil á Icesave-skuldunum.

Davíð fer þó engum orðum um ábyrgð Geirs H. Haarde, þáverandi forsætisráðherra Sjálfstæðisflokksins í Icesave deilunni. Hinsvegar birtist bréf sem Davíð segist hafa sent Geir þann 22. október. Þar spyr hann hvort stjórnvöld ætli virkilega að taka á sig Icesave-skuldaklafann án þess að kanna lagaheimildir til hlítar.

Hann líkir Icesave-skuldinni við að borga reikninga nágrannans án þess að mótmæla að sér beri þess nokkur skylda.

Davíð tók hinsvegar fram í viðtalinu að kæmust dómstólar að þeirri niðurstöðu að þjóðin skyldi borga, þá ætti ríkið að standa við sínar skuldbindingar.

Þá sagði hann skjöl til í utanríkisráðuneytinu frá núverandi seðlabankastjóra Seðlabanka Evrópu sem sýndi fram á lagaleg rök fyrir því að allsherjarhrun, líkt og gerðist á Íslandi, á ekki við varðandi innistæðutryggingakerfið.

Ekki náðist í núverandi utanríkisráðherra, Össur Skarphéðinsson við vinnslu fréttarinnar.




Tengdar fréttir

Davíð vill ekki borga

Davíð Oddsson, fyrrverandi forsætisráðherra og nú síðast Seðlabankastjóri, segist ekki vilja greiða Icesave-skuldir án þess að reynt verði að fara dómstólaleiðina á undan. Þetta kemur fram í viðtali sem Agnes Bragadóttir tók við hann í sunnudagslaði Morgunblaðsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×