Erlent

Dalai Lama neitað um vegabréfsáritun í S-Afríku

Dalai Lama.
Dalai Lama. MYND/AP

Stjórnvöld í Suður-Afríku hafa neitað Dalai Lama leiðtoga Tíbeta um vegabréfsáritun. Þau eru sökuð um að hafa látið undan þrýstingi frá Kína.

Dalai Lama ætlaði að taka þátt í friðarráðstefnu í Jóhannesarborg ásamt Suður-Afríska erkibiskupinum Desmond Tutu og de Klerk fyrrverandi forseta landsins. Þeir hafa allir þrír hlotið friðarvereðlaun Nóbels.

Dalai Lama var neitað um vegabréfsáritun á þeim forsendum að hann væri ekki á lista yfir opinbera boðsgesti. Þetta þykir mörgum vera heldur ómerkilegur fyrirsláttar. Þeir gera því skóna að stjórnvöld hafi látið undan þrýstingi frá Kínverjum sem ólmast ákaflega á öllum þjóðum sem tíbetski leiðtoginn heimsækir.

Kínverjar eru að fjárfesta gríðarlega í Afríku og það gæti verið spónn úr aski að móðga þá.

Desmond Tutu biskup hefur brugðist reiður við þessum tíðindum og hótað að hætta við þáttöku í ráðstefnunni.

Dalai Lama er væntanlegur til landsins og mun dvelja á Íslandi dagana 1.-3. júní næstkomandi. Hann mun halda fyrirlestur í Laugardalshöll um lífsgildi, viðhorf og leiðir til lífshamingju ásamt því að svara fyrirspurnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×